Geir Ágústsson skrifar:
Ég er enginn sérstakur aðdáandi Bjarna Benediktssonar, fráfarandi fjármálaráðherra. Hann hefur miklu frekar verið ill nauðsyn en drífandi stjórnmálaforingi. Honum tekst að halda hlutum límdum saman - Sjálfstæðisflokknum (það sem er eftir af honum), ríkisstjórninni - en mögulega má þakka honum fyrir að ríkissjóður stendur miklu, miklu betur en flestir sjóðir sveitarfélaga á Íslandi. Hann er duglegur og diplómatískur, en varla meiri hægrimaður en forsætisráðherra Danmerkur (sósíaldemókrati).
En mögulega er hann að reynast vera klókasti stjórnmálamaður Íslands í dag og að spila skák þar sem öll peðin færa sig sjálf í rétta reiti.
Hann segir af sér en lýsir því um leið yfir að hann sé ósammála áliti Umboðsmanns Alþingis. Hann fær afsögn sína til að hljóma eins og kurteisilegan greiða, og stígur skrefið áður en nokkur manneskja nær að reyna ýta honum út.
Eins og bent hefur verið á fer núna að hitna undir matvælaráðherra sem situr þrátt fyrir að hafa brotið lög.
Formaður Flokks fólksins hrósar Bjarna fyrir að stíga til hliðar, og orðar á sinn einstaklega skemmtilega hátt:
„Þetta eru algjör tímamót í íslenskri stjórnmálasögu. Hingað til höfum við þurft að hrinda þeim fyrir björg þessum blessuðu ráðherrum ef við ætlum að losna við þá, eða þvinga þá á einhvern hátt.“
Ekki styrktist ríkisstjórnin við þetta. Bjarni var eina brúin á milli kommúnistanna og kratanna. Hann er ekki hættur á þingi en kominn neðar í goggunarröðina.
Kannski sér hann fyrir sér nokkrar mögulegar útkomur.
Að ríkisstjórnin springi og að blásið sé til kosninga. Bjarni er ennþá formaður og nú með ásynd hins ábyrga sem axlar ábyrgð, þó ekki væri nema til að tryggja starfsfrið þingsins fyrir hrópum og rangfærslum dindla.
Að ríkisstjórnin springi og að það megi í hvelli líma saman nýja ríkisstjórn með Miðflokki, Framsókn og Flokki fólksins.
Að ríkisstjórnin tóri en þannig að það blasi við að versnandi tíð fram að kosningum komi Sjálfstæðisflokknum ekkert við. Vinstri-grænir fái skellinn, jafnvel þótt Sjálfstæðismenn fá einhvern úr eigin röðum til að taka við fjármálaráðuneytinu.
Eða eitthvað annað. Eitthvað er það, sama hvað.
Vonandi rankar Bjarni þá aðeins við sér og rifjar upp stefnu, ályktanir og hugmyndafræði flokks síns og þorir að tala út frá þeim pappír, sem í dag hangir á rúllu á klósettinu í Stjórnarráðinu.
Ísland er að sligast undan regluverki Evrópusambandsins sem hefur verið túlkað á versta mögulega hátt í íslenskri löggjöf. Skattar eru í hæstu hæðum. Verðbólgan virðist vera þrálát. Það vantar húsnæði. Innflytjendur eru einfaldlega orðnir of margir . Listinn er endalaus. Það þarf að finna stóra sópinn og byrja að sópa.
Kannski er Bjarni rétti maðurinn í það núna þegar hann þarf ekki að eyða öllu sínu púðri í að líma saman hluti sem eru að detta í sundur í sífellu.
En kannski ekki. Við sjáum hvað setur.