“Þjóðhátíðargestur benti á manninn, húðlitur hafði ekkert með það að gera”

frettinInnlentLeave a Comment

Í frétt á Visir.is þann 8. október var sagt frá ungum manni sem er dökkur á hörund og segist hafa orðið fyrir kynþáttafordómum.  Í fréttinni er sagt frá því að lögreglumenn hafi sigtað hann út vegna húðlitar meðan allir vinir hans voru látnir í friði.  Hann segist hafa verið tekinn hálstaki snögglega, mjög óvænt og fast.   Í kjölfarið hafi lögreglan tekið hann fastatökum og farið með hann bakvið tjald þar sem leitað var á honum og honum neitað að hringja í föður sinn. 

Ungi maðurinn lýsti þessari reynslu sem mjög óþægilegri og að sér hafi liðið eins og húðlitur hans hafi verið það sem gerði að verkum að lögregla tók hann afsíðis.  Hann er búinn að höfða mál á hendur ríkinu vegna málsins og hefur lögmaður mannsins farið fram á miskabætur frá ríkinu.

Manneskja hefur gefið sig fram við Fréttina vegna málsins og var sú manneskja í gæslu á svæðinu, en mikill fjöldi gæslumanna er á hátíðinni ár hvert til að tryggja öryggi gesta og að allt fari fram á sem öruggastan hátt.  Vitnið hefur ekki áhuga á að koma fram undir nafni.

„Það var ég sem kallaði eftir aðstoð lögreglu vegna mannsins sem minnst er á í fréttinni.  Við vorum á ferðinni nálægt tjaldinu þegar þjóðhátíðargestur kemur upp að mínum hóp og tilkynnir okkur að hann hafi séð mann með hníf á lofti inni í tjaldinu.  Þjóðhátíðarnefnd var með sérstakan fund fyrir hátíðina þar sem lögregla og gæslufólk bar saman bækur sínar hvernig standa skyldi að ákveðnum málum og í ljósi aukins hnífaofbeldis var farið inn á það svið sérstaklega.   Það var sérstaklega brýnt fyrir okkur gæslufólki að hafa engin afskipti af fólki sem grunað var um hnífaburð, heldur tilkynna það umsvifalaust til lögreglu og reyna að hafa augun á þeim sem voru grunaðir um vopnaburð.“

Aðspurð segir gæsluliðinn að meðan beðið var eftir lögreglu hafi gæslan tímabundið misst sjónar á manninum

„Við misstum af honum inni í tjaldinu enda tjaldið troðfullt af fólki.  Þegar lögregla mætir á staðinn gáfum við þeim lýsingu á manninum og klæðaburði.  Eftir talsverða leit komum við auga á hann og bentum lögreglu á hann svo lítið bæri á, enda viljum við ekkert skipta okkur af málum sem mögulega gætu verið svona alvarleg.  Gæslan er hvorki þjálfuð né búin til þess að takast á við hnífa ef til þess kæmi.“

Gæsluliðinn segir svo að í kjölfar þessa hafi lögreglan haldið í átt að manninum en gæsluhópurinn hafi haldið strax af stað í annað verkefni, enda var mikill erill á gæslufólkinu þessa hátíðina og lítill tími til að staldra við eitthvað sem þeim kom ekki lengur við.  Gæslan hafi því ekki, eftir því sem gæsluliðinn best veit, orðið vitni að því þegar lögreglan tekur manninn afsíðis, né hvernig samskiptum var háttað þegar bakvið tjaldið var komið.

„Ég vil taka sérstaklega fram að við sáum hann aldrei með hníf, enda fórum við ekki upp að honum heldur fylgdumst bara með honum úr fjarlægð eins og okkur var leiðbeint að gera, meðan við biðum eftir lögreglunni.  En það var ekki húðlitur eða tilviljun sem varð til þess að lögregla hefur afskipti af manninum, heldur var það gestur á svæðinu sem benti á hann sérstaklega.“

Aðspurður segist gæsluliðinn ekki ætla gefa sig fram við lögreglu

„Ég hef engan áhuga á að blandast inn í svona mál og bera vitni í einhverjum einkamálum þegar kemur að hátíðinni.  Ef um sakamál væri að ræða myndi það horfa öðruvísi við.  Ég veit um dæmi þess að gæslufólk hefur þurft að bera vitni um líkamsárásir á hátíðinni mörgum mánuðum og jafnvel meira en ári seinna og ég hef hvorki tíma né nennu til að standa í svoleiðis nema um alvarlegt mál væri að ræða.  Ef lögregla hefði sérstaklega samband myndi afstaðan líklega breytast en svona standa málin akkúrat núna.“

Skildu eftir skilaboð