Geir Ágústsson skrifar:
Vandamál má í grófum dráttum flokka í tvo hópa:
- Þau sem menn búa til sjálfir, t.d. með því að gera eitthvað (eða sleppa því) sem hefur fyrirsjáanlegar afleiðingar
- Þau sem koma upp af ástæðum sem erfitt er að ráða við (t.d. loftsteinn úr himnum)
Sum vandamál falla í báða hópa. Sem dæmi má nefna verðbólguna. Bæði stafar hún af peningaprentun eigin seðlabanka, auk óhóflegra hækkana í rekstrarkostnaði fyrirtæki vegna kjarasamninga, og hækkkun í verði á aðkeyptum aðföngum, svo sem olíu og fatnaði.
Orkuskorturinn, sem nú þegar hrjáir Ísland, er vandamál sem Íslendingar bjuggu til sjálfir, alveg án utanaðkomandi áhrifa. Vandræði við að koma orku frá framleiðslustað til notenda eru líka heimatilbúin, en fyrir þeim má hafa aðeins meiri samúð (framleiðslustaðir eru tiltölulega fáir en notendur dreifðir).
En af hverju framleiða menn heimatilbúin vandræði?
Mögulega má rekja það til þess að við höfum tilhneigingu til að einblína á það sem við getum séð með berum augum og hugsum ekki um það sem við sjáum ekki. Við sjáum að nýr íþróttaleikvangur er í smíðum en ekki að í staðinn sitji skattgreiðendur eftir með skert sjálfsaflafé sem þeir geta þá vitaskuld ekki eytt í skó, nýtt grill eða klippingu. Íþróttaleikvangurinn er augljós en töpuð viðskipti í hagkerfinu ekki.
Franski hagfræðingurinn Frédéric Bastiat (1801-1850) gerði þetta vandamál að efnivið í dæmisögu um brotinn glugga. Eigandi gluggans neyddist til að skipta um glugga sem einhver hafði brotið og því fagnað sem eins konar ávinningi fyrir samfélagið. Gluggasmiðurinn fékk jú verkefni! En í staðinn gat eigandi hins brotna glugga ekki keypt sér bók eða brók. Fólk sá hinn nýja glugga en ekki allt hitt sem aldrei varð.
Gæti þetta útskýrt áráttu okkar til að framleiða vandamál?
Mögulega að sumu leyti, en mögulega ekki, því stundum er hið séða of sýnilegt. Menn sjá virkjun, hryggjast og sjá tapaða eyðimörk eða að nokkrar gæsir þurftu að færa hreiðurstæði sín. Menn taka af þessum ósköpum myndir með farsímum sem virkjunin framleiddi rafmagnið fyrir. Þeir keyra að lóninu á veg sem virkjunin greiddi fyrir. Þeir bölva gróðrinum sem hin hækkaða grunnvatnsstaða vökvar. Þeir hryggjast um leið og þeir njóta.
Framleiðsla vandamála er ekkert nýtt fyrirbæri. Heimsveldi hafa í gegnum þúsundir ára fallið í kjölfar verðbólgu og stríðsátaka. Við höldum áfram að drekka og éta okkur til dauða. Við höldum áfram að velja stjórnmálamenn sem taka peningana okkar og reisa fyrir þá hallir og skrifræðisbákn eða setja í ríkisrekstur sem breytist í botnlausa hít.
En þeim samfélögum vegnar best sem leysa vandamál frekar en búa þau til. Slík samfélög eru til og það er aldrei of seint að breyta úr því að framleiða vandamál í að leysa þau.
Kannski ekki með þá þingmenn sem sitja í dag, en lýðræðið gefur okkur óendanlega mörg tækifæri til að snúa við blaðinu. Dagleg, frjáls viðskipti líka, en þau eru miklu skilvirkari í að hreinsa út það sem virkar ekki, og ekki til umræðu hér.
Vonum það besta næst, aftur.