Páll Vilhjálmsson skrifar:
Ótti við kjarnorkustríð gerði vart við sig er tvísýnt var um framgang sléttustríðsins í Garðaríki. Sagt var að Pútín forseti Rússlands kynni að beita kjarnorkuvopnum færi hann halloka í Úkraínu. Vestrið tók slaginn engu að síður.
Eftir fjöldamorð Hamas á gyðingum og svar Ísraelshers var ekki rætt um heimsslit. Áhyggjur beindust norðurlandamærum Ísraels, hvort skjólstæðingar klerkanna í Íran kynnu að opna nýja víglínu. En almennt var ekki talað annað en að um staðbundin átök yrði að ræða með tilheyrandi hörmungum þeirra sem í hlut eiga en litla hættu á kjarnorkubáli.
Eftir árás Hamas á Ísrael hvarf Úkraína af dagskrá fjölmiðla. Sléttustríðið varð að héraðsríg slavneskra frændþjóða.
Á meðan Úkraína var til umræðu stóð vestrið nokkuð einhuga að baki stjórn Selenskí í Kænugarði. Litlar fréttir voru af vestrænum kröfum, hvort heldur frá valdamönnum eða almenningi, um að saminn yrði friður. Einhugur um að láta Úkraínu blæða út til að skaða Pútín.
Öðru máli gegnir um afstöðuna til Ísrael. Þar gildir að þorri ráðamanna á vesturlöndum fordæmir Hamas. En víða, t.d. í henni Reykjavík, má heyra af samkomum, mótmælum, til stuðnings málstað Palestínumanna sem túlkaður er a.m.k. sem óbeinn stuðningur við fjöldamorð Hamas ef ekki fullur stuðningur.
Meginstuðningurinn við Palestínumenn og Hamas í vestrinu er frá vinstrimönnum. Meðal vinstrimanna, ekki allra en stórum hópum þeirra, er litið svo á að Ísrael eigi sér tæpast tilverurétt.
Samkvæmt forskrift meginstraumsfjölmiðla stendur Úkraínustríðið um tilvistar- og sjálfsákvörðunarrétt úkraínsku þjóðarinnar. Ráðandi frásögn sem fáir andmæla. En aftur telja stórir hópar, einkum vinstrimenn, að vafi leiki á tilvistarrétti Ísrael. Raunar ganga sumir skrefinu lengra og taka undir með Hamas: Ísrael skal afmá af landakortinu.
Fyrir Úkraínu má stefna heimsfriðnum í hættu. En fyrir Ísrael skal ekki gera meira en að þjóð gyðinga rétt tóri, ef það. Ísrael er örríki í samanburði við Úkraínu. Ef Úkraínuher myndi leggja niður vopn á morgun þyrftu landsmenn varla að óttast skipulagðar ofsóknir Rússa. Ef Ísraelsher legði niður vopn á morgun stæðu gyðingar frammi fyrir útrýmingu.
Samhygðin er töluvert meiri með slavneskri þjóð en gyðingaþjóðinni. Þeir sem skipta ójafnt manngæskunni telja sig undantekningalaust til mannvina.
Hún er kyndug mennskan á vesturlöndum. Einkum vinstrimennskan.