Geir Ágústsson skrifar:
Áður en lengra en haldið vil ég taka fram að ég sé enga ástæðu fyrir karlmenn til að fara í sérstakt verkfall til að minna á mikilvægi starfa sinna. Karlmenn eru í yfirgnæfandi meirihluta starfa sem slíta upp líkama og sál - iðnaðarmanna, verkamanna og þar fram eftir götunum - og þakka ég daglega fyrir krafta þeirra, en svona er lífið.
Með því að sleppa verkfalli þurfa karlmenn þar með ekki að fá slæmt samviskubit yfir því að hafa sent börnin svöng í skólann eða skilið lasinn fjölskyldumeðlim eftir einan í þjáningum sínum eins og boðun í kvennaverkfallið hvatti til.
Allar konur og öll kvár sem það geta eiga að leggja niður störf þann 24. október; ekki mæta til vinnu, ekki annast börnin s.s. gefa þeim mat eða smyrja nesti né sinna veikum fjölskyldumeðlimum heldur fá karlkyns fjölskyldumeðlim til að standa vaktina. Sleppa á öllu sem gæti talist til starfa hvort sem er átt við launaða vinnu, eða ólaunaða líkt og umönnun barna, sinna heimilinu eða þriðju vaktina svokölluðu.
Karlmenn halda bara sínu striki, sinna börnum og heimili eins og flestir gera nú þegar nú til dags til jafns við maka sinn, sinna launaðri og ólaunaðri vinnu í eilífu púsluspili hins dagslega amsturs, borga reikningana til jafns við vinnandi maka sinn og reyna að kreista út eins og einn klukkutíma í sófanum í lok dags þegar allt er gengið yfir.
Til að bæta enn í ætla karlmenn á mörgum vinnustöðum að auki að taka á sig aukavinnu og í raun tekjuskerðingu til að borga konum í verkfalli laun.
Það liggur við að konur þurfi bráðum að skipuleggja nýjan viðburð: Dagur þakklætis fyrir karlmenn. Takk fyrir allt stritið! Takk fyrir breiðu bökin! Takk fyrir að bera byrðar af skyldurækni og ábyrgð og án kvartana!
En við karlmenn erum ekki að búast við neinu slíku né biðja um það. Við leggjum með ánægju okkar á vogarskálarnar, líka á dögum þegar konan nennir ekki.
One Comment on “Hvað með störf karlmanna?”
Ég sé um heimilið okkar,hann sér um að fjölskyldan hafi þak undir höfði okkar.
Ég hugsa um börnin okkar er þau verða veik. Hann nuddar úr mér stirðleikann.
Ég elda ekki rusl, skindibiti er spari.
Maðurinn minn og börn elska mig það er það dýrmætasta í mínu lífi.
Ég ættla að vinna þennan dag hef ekki áhuga á að vorkenna mér.
Hverjar eru með?