Bandaríkin hafa sent 20 öflugar ATACMS langdrægar eldflaugar í leyni til Úkraínu sem hefur notað flugskeytin til að gera árás á rússnesk skotmörk. Rússar bregðast við með því að hefja varanlegt eftirlit í lofthelginni yfir Svartahafi. Vladimír Pútín Rússlandsforseti bendir á í yfirlýsingu að rússnesku orrustuþoturnar séu vopnaðar hinu háhraða Kinzhal kerfi, sem starfar á Mach 9 hraða og ná yfir 1.000 kílómetra.
Fyrr í vikunni notuðu úkraínskar hersveitir í fyrsta sinn langdrægar eldflaugar gegn Rússlandi sem Bandaríkin útveguðu Úkraínu í leyni, að því er New York Times greinir frá. Um er að ræða ATACMS kerfi, sem notar klasasprengjur. „950 litlar sprengjur sem geta valdið skemmdum á stóru svæði” samkvæmt New York Times.
Flaugarnar hafa sannað getu sína
Úkraína hefur notað vopnið til að ráðast á hafnarborgina Berdyansk sem er hernumin af Rússlandi. Volodomyr Zelenskí, forseti Úkraínu, hefur staðfest afhendingu ATACMS-flauganna. Hann segir í ræðu:
„Í dag er ég sérstaklega þakklátur Bandaríkjunum. Samningar okkar við Biden forseta eru í framkvæmd og útfærðir mjög nákvæmlega – ATACMS hefur sannað hvað það stendur fyrir.”
Samkvæmt NYT er óljóst hversu mikil áhrif eldflaugakerfið muni hafa á vígvellinum. Blaðið skrifar, að önnur vopn sem Vesturlönd hafa sent hafi aðeins haft lítil áhrif. Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur haft áhyggjur af því að vopnasending ATACMS gæti aukið átökin við Rússland.
Flugherinn eykur eftirlit yfir Svartahafi
Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir í yfirlýsingu í heimsókn sinni til Peking að háþróuð vopn sem Bandaríkin hafa nú sent muni ekki breyta ástandinu á vígvellinum heldur aðeins lengja þjáningar Úkraínu. Pútín heldur því fram, að Rússar hafi getu til að hrinda árásunum frá sér. Pútín segir samkvæmt Spútnik News:
„Vinsamlegast athugið, að það sem ég er að fara að segja, er ekki hótun heldur uppfærsla. Samkvæmt fyrirmælum mínum mun rússneski flugherinn hefja eftirlit með hlutlausu svæði í loftrýminu yfir Svartahafi með reglulegu millibili. Og MiG-31 flugvélarnar okkar eru vopnaðar Kinzhal kerfinu, sem hefur Mach 9 hraða og drægni yfir 1.000 kílómetra.”
Pútín bendir enn fremur á „að Bandaríkin dragast sífellt meira inn í átökin í Úkraínu.”