Páll Vilhjálmsson skrifar:
Eftir 20 mánaða stríð í Úkraínu og mannfall sem hleypur á tugum þúsunda styðja fleiri en sjö af hverjum Rússum stríðsreksturinn, samkvæmt óháðri skoðanakönnun. Niðurstaðan gengur þvert á frásagnir vestrænna meginstraumsfjölmiðla sem draga upp þá mynd af rússneskum almenningi að hann sé mótfallinn stríðinu sem hófst í febrúar 2022.
Þýska útgáfan Die Welt segir frá könnuninni sem gerð er af Lewada. Die Welt er borgaraleg útgáfa og, líkt og flestir vestrænir fjölmiðlar, höll undir málstað Úkraínumanna. Þannig talar útgáfan iðulega um stríð Pútíns, líkt og það sé einkaframtak forsetans. Die Welt ræðir við stjórnanda Lewada, Lew Gudkow.
Gudkow nefnir tvær meginástæður fyrir tiltölulega breiðum stuðningi rússnesks almennings við Úkraínustríðið. Í fyrsta lagi óttast Rússar að tapa þjóðarsérkennum. Yfirlýst markmið yfirvalda í upphafi átaka var að verja Rússland vestrænni ágengni Bandaríkjanna og Evrópusambandsins sem kappsamlaga unnu að innlimun Úkraínu í hernaðarbandalag vestursins, Nató. Með Úkraínu sem bandamann ættu vesturlönd allskostar við Rússland. Rússar vilji eiga her sem er i stakk búinn að verja landamæri ríkisins.
Seinni ástæðan er að ósigur í Úkraínu ylli kollsteypu heimafyrir, Pútín og ríkisstjórn hans myndu falla. Rússar muna niðurlægingartímabilið frá 1991 til 2000 þegar auðmenn, bæði rússneskir og vestrænir, sölsuðu undir sig ríkiseigur á meðan almenningur átti vart til hnífs og skeiðar. Um aldamótin, þegar Pútín tók við, hófst skeið stöðugleika og efnahagslegra framfara sem allur þorri landsmanna naut ávaxtanna af. Árin eftir fall Sovétríkjanna voru hörmungarár í rússneskri sögu. Lítill áhugi er að endurnýja kynnin.
Blaðamaður Die Welt spyr Gudkow hvort hann muni eftir óvæntum niðurstöðum úr skoðanakönnunum. Eftir umhugsun kveðst Gudkow mun eftir einu svari sem stakk hann. Rússar voru spurðir hvort þeir finndu til persónulegrar ábyrgðar á stríðsrekstrinum í Úkraínu. Aðeins tíu prósent sögðu já. ,,Allur þorri manna skildi ekki einu sinni spurninguna," segir Gudkow.
Stríðið í Úkraínu fellur í skuggann af átökum Hamas og Ísrael, sem hófust 7. október. Á þeim tveim vikum sem liðnar eru versnar staða stjórnarhers Úkraínu. Sumarsóknin fór út um þúfur. Rússar tóku frumkvæðið á vígvellinum. Engar fréttir eru af friðarviðræðum.