Héraðssaksóknari misnotar lagareglur og brýtur á mannréttindum sakborninga: neitar verjendum aðgang að gögnum

frettinInnlent, Páll Vilhjálmsson1 Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Namibíumálið, ásakanir um að Samherji hafi stundað mútur í Namibíu, er dautt mál. Uppljóstrarinn Jóhannes Stefánsson lagði fram öll frumgögn í nóvember 2019 með milligöngu RSK-miðla. Tvö embætti á Íslandi, héraðssaksóknari og Skatturinn, lögðust yfir gögnin. Frétt RÚV í gær, og viðtal í Kastljósi, er tilraun að berja Namibíuhrossið til lífs. RÚV og embætti héraðssaksóknara eiga þar sameiginlegra hagsmuna að gæta.

Skatturinn tilkynnti fyrir tæpu ári að ekkert saknæmt væri að finna í bókhaldi Samherja, sem var grandskoðað yfir árabilið 2012-2018. Mútur, að ekki sé talað um stórfelldar mútugreiðslur, ættu að skilja eftir sig spor í bókhaldinu. Ekkert fannst.

Embætti héraðssaksóknara heldur málinu engu að síður opnu. Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari hjá héraðssaksóknara fer þar fyrir málatilbúnaði. Tilfallandi bloggaði í mars í ár:

Síðasta hálmstrá RÚV og Heimildarinnar (Stundin/Kjarninn) í Namibíumálinu er Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari og bróðir Inga Freys blaðamanns Heimildarinnar. Finnur Þór heldur málinu enn opnu af hálfu embættis  héraðssaksóknara þótt undirstöður brotni ein af annarri.

Í frétt RÚV í gær var ekki talað við Finn Þór heldur yfirmann hans, Ólaf Þór Hauksson héraðssaksóknara. Bróðir Finns Þórs, Ingi Freyr, er sakborningur í byrlunar- og símastuldsmálinu sem er angi Namibíumálsins. Ekki þótti tilhlýðilegt að Finnur Þór yrði opinberlega í fyrirsvari fyrir Namibíumálið, þar sem bróðir hans á hagsmuni að gæta. Ólafur Þór fór í verkið.

Og hvað sagði Ólafur Þór í gærkvöldi í frétt RÚV og í viðtali í Kastljósi. Jú, það eru komin ný gögn. Í fréttinni segir

Namibíumenn létu Íslendinga bíða, en sendu loksins upplýsingarnar í sumar. Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, segir að verið sé að fara yfir gögnin núna.

RÚV segir fréttina eins og um stórtíðindi sé að ræða. En RÚV og embætti héraðssaksóknara blekkja. Það eru engin ný gögn sem hafa komið fram. Rannsókninni í Namibíu er löngu lokið. Ef engin rannsókn stendur yfir verða ekki til ný gögn. 

Saksóknarinn í Namibíu, sem lögsækir tíu heimamenn fyrir skatt- og umboðssvik en ekki mútur, segir að málatilbúnaður hafi legið fyrir síðasta vor. Löngu fyrir þann tíma var rannsókn hætt. Samherji er ekki ákærður í Namibíu og enginn Íslendingur er á sakabekk.

Hvaða gögn gæti verið um að ræða? Fyrir ári skrifaði Finnur Þór bréf til Namibíu og bað um almennar upplýsingar varðandi málareksturinn þar syðra. Nú er komið svar frá Namibíu en það eru gömul gögn í nýrri sendingu.

Embætti héraðssaksóknara er einfaldalega að kaupa sér tíma. Það er sameignlegt hagsmunamál embættisins og RÚV (R-ið í RSK-miðlum) að halda rannsókninni hér heima áfram. Embættið fékk 200 milljónir til að rannsaka Namibíumálið, sem í sjálfu sér er stórundarlegt. Eyrnamerkt fjárhæð þýðir að saksóknari hefur fjárhagslegan ávinning af töfum máls og hvatningu til ákæru þótt málsefni gefi til kynna sakleysi. Það þarf að skrifa töluvert marga klukkutíma í ,,rannsókn" til að komast upp í 200 m. kr. RSK-miðlar vilja fyrir alla muni að Namibíumálinu verði ekki lokað áður en ákært verður í byrlunar- og símastuldsmálinu.

Embætti héraðssaksóknara stundar vafasamar lögfræðiæfingar til að fela samvinnuna við RÚV. Tilfallandi veit að fyrir tíu dögum neitaði héraðssaksóknari lögmanni eins sakborninganna í Namibíumálinu að ný gögn væru komin í málið. Í viðtalinu við RÚV segir Ólafur Þór að nýja sendingin með gömlu gögnunum hafi komið í sumar og þau séu í skoðun.

,,Héraðssaksóknari misnotar lagareglur og brýtur á mannréttindum sakborninga með því að neita verjendum þeirra aðgang að gögnum sem hann segist í viðtali við RÚV hafa undir höndum. Lagatæknin felst í því að hafa ekki gert gögnin að ,,gögnum málsins", sem er sértækara hugtak og felur í sér aðgang verjenda," segir málsaðili í samtali við tilfallandi.

Til að kaupa sér enn meiri tíma fer embætti héraðssaksóknara fram á að yfirheyra þá tíu sakborninga sem réttað er yfir í Namibíu. Íslensk yfirvöld hafa enga lögsögu þar syðra og munu ekki fá leyfi til skýrslutöku. Til vara fara Ólafur Þór og Finnur Þór fram á að vera viðstaddir yfirheyrslur. Réttarhald í Namibíu hefst að nýju í lok janúar á næsta ári og stendur líklega fram undir vor. Aðeins eftir dómsuppkvaðningu haustið 2024 kæmi til greina að namibísk yfirvöld efndu til skýrslutöku í þágu hagsmuna RSK-miðla og héraðssaksóknara.

Namibíumálið er búið til af siðlausum fréttamönnum og áfengum uppljóstrara. Málinu er haldið opnu vegna sameiginlegra hagsmuna embættis héraðssaksóknara og RSK-miðla. Málsmeðferðin er eins og hún væri hjá einkafyrirtækinu Glæpur og refsing ehf.

One Comment on “Héraðssaksóknari misnotar lagareglur og brýtur á mannréttindum sakborninga: neitar verjendum aðgang að gögnum”

  1. Hryllilega er Ísland ordid rotid eda kannski hefur thad alltaf verid svona en núna ordid svo augljóst.

Skildu eftir skilaboð