Hallur Hallsson skrifar:
Læknir Orkuhússins sagði ósatt og afvegaleiddi sjúkling og raunar alla málsaðila um afleiðingar axlaraðgerðar sem gerð var fyrir sjö árum, 12. október 2016. Ég hef verið að segja ykkur frá. Þann 10. janúar 2018, fór fram rannsókn í Orkuhúsinu á öxlinni minni. Þar kom fram að supraspinatus-sin í vinstri öxl minni er sundurtætt, slitin og rifin; „...stór fullþykktar rifa í supraspinatus sininni og virðist sem maður sjái sinina um 2sm frá festunni,“ var úrskurður röntgenfræðings. Þessum upplýsingum var leynt fyrir mér. Læknirinn sem stýrði aðgerðinni kvað smávægilegt slit í öxl. Eftir að málið kom fyrir Landlækni 2020 endurtók hann ósannindin og fullyrti fyrir Landlækni: „öxlin ok, generativ hrörnunarrifa ... lagað axlareinkennin.“
Þann 20. mars 2021 í rannsókn í Domus Medica fór fram önnur rannsókn á öxlinni vegna þrálátra verkja. Þá fyrst fékk ég vitneskju um að sinin er sundurslitin. „Það er gegn um gangandi rifa í miðhluta supraspinatus sinarinnar á ca 6mm löngu svæði og sinaendarnir dregnir upp í hæð við acrimion,“ skrifaði röntgenlæknir. Undirliggjandi er afsagað viðbein sem er alvarlegt mál, grafalvarlegt mál fyrir mann með alla mína áverka úr bernsku. Þá voru liðin fjögur og hálft ár frá aðgerð. Í allan þennan tíma hafði Orkuhúsið neitað að öxlin hefði nokkuð með verkina að gera.
Hinir ríku og voldugu verndaðir
Þegar fyrir lá hvers kyns var, tvær rannsóknir um skaðsemi aðgerðarinnar, upplýsti ég Landlækni, Sjóvá og stjórnarmenn Orkuhússins um þessa ámælisverðu framgöngu. Ég sendi ábyrgðarbréf til þessara aðila 26. maí 2021. „Hér hafa gerst alvarlegir hlutir,“ skrifaði ég. Það verður ekki skýrar: Orkuhúsið hafði sagt öxlina ok, sem stangast á við tvö sérfræðiálit, læknirinn var staðinn að röngum vitnisburði fyrir stjórnvaldi sem á kjarnyrtri íslensku er lygi. Ég hvatti Landlækni til að vísa málinu til opinberrar rannsóknar, sumsé lögreglu og Sjóvá til greiðslu bóta.
Ég hafði sætt innrás í líkama, orðið fyrir alvarlegum skaða og þeir sem það gerðu voru staðnir að ósannindum. En hvað gerðu þeir sem áttu að axla ábyrgð? Landlæknir og Sjóvá hylmdu yfir með hinum ríku og voldugu í Orkuhúsinu sem þegir og þaggar fram á þennan dag. „Kvörtunin fjallar fyrst og fremst um að aðgerðin var gerð að hluta til opin og ekki eingöngu með liðspegli,“ segja Landlæknir og Sjóvá. Þetta er auðvitað ekki hægt að skálda. Það sem hér er skrifað kemur allt fram í opinberum gögnum Landlæknis. Þrátt fyrir niðurstöðu sína staðfestir Landlæknir að Hallur Hallsson hafi: „... átt við mikla líkamlega vanheislu að stríða sem hefur fengið á hann og valdið honum atvinnumissi og skertum lífsgæðum.“ Stærsta einkaklínik landsins axlar ekki ábyrgð, lýgur og afvegaleiðir sjúkling. Landlæknir hylmir yfir ásamt einu helsta tryggingafélagi landsins.
One Comment on “Svona hylma Landlæknir og Sjóvá yfir með Orkuhúsinu”
Ef folk i åbyrgdarstødum vidurkennir ekki mistøk og rangmæli. Verdur ad fara varlega ad theim. Thau eru aum sjålf og vidkvæm. Og skadinn sem thau valda einstaklingum styrkir thau ekki. Nema thau standi saman gegn thessum skituga skril, sem kvartar yfir fullkomnun theirra og visindum. Thetta er pinuponsu hluti thjodarinnar. Vid verdum ad slaufa reglurnar og byrja ad handsama thetta folk. Og stjornarskråin er med okkur. Ekki theim ????