Stefán þýfgaði Sigríði Dögg um Airbnb-skattsvikin

frettinInnlent, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri fundaði með Sigríði Dögg Auðunsdóttur fréttamanni RÚV og formanni Blaðamannafélags Íslands um stöðu hennar sem fréttamanns. Tilefni fundarins voru fréttir um skattsvik Sigríðar Daggar sem hún viðurkenndi með Facebook-færslu 11. september síðast liðinn.

Fréttamaðurinn stundaði umfangsmikla útleigu húsnæðis til ferðamanna í gegnum Airbnb-bókunarkerfið. Útleigan var stunduð í  miðborg Reykjavíkur, Suðurgötu 8, alls fjórar íbúðir með 28 svefnplássum. Líklegar leigutekjur Sigríðar Daggar eru um eða yfir 100 milljónir króna sem hún gaf ekki upp til skatts.

Eftir að upp komst gerði Sigríður Dögg sátt við skattrannsóknastjóra líkt og um minniháttar skattalagabrot væri að ræða. En 100 milljón króna skattsvik teljast meiriháttar brot.

Sigríður Dögg, fréttamaður RÚV og formaður stéttafélags blaðamanna, neitar að tjá sig við fjölmiðla um málið og hefur ekki upplýst umfang skattsvikanna og forsendur fyrir sáttinni við skattrannsóknastjóra.

Á stjórnarfundi RÚV þann 27. september var Stefán Eiríksson útvarpsstjóri spurður um málefni Sigríðar Daggar. Stefán gerði stjórnarmönnum grein fyrir að hann hafi átt fund með fréttamanninum. Sagt er frá upplýsingagjöf til stjórnarinnar í dulkóðun í fundargerð sem nýlega var birt á heimasíðu RÚV. Dulmálið er svohljóðandi:

b. Fjölmiðlaumfjöllun um starfsmann RÚV

Útvarpsstjóri var spurður um umfjöllun í fjölmiðlum um starfsmann félagsins þar sem komu fram ásakanir á hendur viðkomandi. Útvarpsstjóri kvaðst hafa rætt við starfsmanninn og taldi ekki þörf á því að málið yrði skoðað nánar.

Augljóst er af loðnu orðalagi að málið er ofurviðkvæmt á Efstaleiti. Ef allt væri með felldu hefði Stefán upplýst málið til fulls, lagt fram gögn um skattsvik fréttamannsins og útskýrt að skattalagabrot upp á um eða yfir 100 milljónir króna gerir fréttamann RÚV ekki vanhæfan að fjalla um afbrot annarra í fréttum.

Trúverðugleiki RÚV er í húfi. Allar fréttir á RÚV er varða lögbrot verður að meta í því ljósi að ríkisfjölmiðillinn telur sjálfsagt að starfsmenn RÚV séu staðnir að lögbrotum án þess að það þyki tiltökumál. En fréttastofa RÚV fer mikinn þegar öðrum en innherjum Efstaleitis verður á í messunni.

Viðbrögð RÚV við skattsvikamáli Sigríðar Daggar eru til marks um tvöfalt siðgæði. RÚV fjallar einatt og iðulega um lögbrot annarra, jafnvel grun um lögbrot, en sópar undir teppið fréttum af afbrotum eigin starfsmanna. Með orðum útvarpsstjóra: lögbrot fréttamanna RÚV þarf ekki að ,,skoða nánar."

Þegar fréttamenn RÚV krefja mann og annan svara um eitthvað sem viðmælendur vilja láta kyrrt liggja er komið skothelt viðkvæði. Sumt þarf ,,ekki að skoða nánar." Málið dautt.

Skildu eftir skilaboð