Páll Vilhjálmsson skrifar:
Helgi Seljan er upphafsmaður Namibíumálsins, ef einhver einn er um þá nafnbót. Þá er sami Helgi upphafsmaður seðlabankamálsins. Í báðum tilvikum var Samherji skotskífan. Með RÚV sem bakhjarl gat Helgi skáldað fréttir. Fólk var lengi vant að RÚV segi satt, þótt nú sé öldin önnur, og fréttamaðurinn nýtti sér það til hins ítrasta; bjó til ósannindi og flutti sem fréttir.
En svo var Helgi látinn fara frá RÚV í byrjun árs 2022. Fréttalygarnar urðu of margar, jafnvel fyrir Efstaleiti. Fréttamaðurinn fór á hjáleiguna Stundina sem um síðustu áramót sameinaðist annarri hjáleigu RÚV, Kjarnanum, undir heitinu Heimildin. Þar stundar Helgi iðju sína og ber voldugt starfsheiti, rannsóknaritstjóri.
Í nýjasta tölublaði Heimildarinnar skrifar Helgi frétt um launadeilu Þorgeirs Pálssonar við Ísfélagið. Fyrir sjö árum tók Þorgeir að sér fyrir Ísfélagið að fara til Namibíu að kanna veiðar á hrossamakríl. Ekkert varð úr og Þorgeir taldi sig hlunnfarinn. Um það snýst frétt Helga.
Eitt vantar i frétt Helga sem setur málið í allt annað samhengi. Maðurinn sem Þorgeir vann með í Namibíu heitir Jóhannes Stefánsson. Já, einmitt, sami Jóhannes og starfaði fyrir Samherja og fékk síðar viðurnefnið uppljóstrari. Jóhannes er aðalheimild Helga fyrir Namibíumálinu, sem varð stórfrétt í nóvember 2019.
Þorgeir var í samskiptum við Jóhannes sumarið 2016. Tölvupóstur fór þeirra á milli 23. júlí 2016 með yfirskriftinni ,,Pælingar um stöðu mála."
Hvaða erindi átti Ísfélagsmaður að ræða við Jóhannes sem var starfsmaður Samherja? Skýringin er að Jóhannes lék tveim skjöldum. Formlega var hann starfsmaður norðlensku útgerðarinnar en í reynd var hann viðskiptafélagi namibískra kvótaeigenda. Bróðir Jóhannesar er millistjórnandi hjá Ísfélaginu og þannig komust á samskiptin. Þorgeir fór út til Jóhannesar sumarið 2016.
Jóhannes hagaði sér eins og einvaldur og vildi skipta út Samherja fyrir Ísfélagið. Tilfallandi bloggaði um málið fyrir tveim árum og sagði hvernig Jóhannes var afhjúpaður sumarið 2016, um sama leyti og Þorgeir heimsótti uppljóstrarann sem lék tveim skjöldum í Namibíu:
Jón Óttar tók upp símtal við Jóhannes 14. júlí 2016 þar sem verðandi uppljóstrari sagðist ætla að slíta öll tengsl við Samherja og taka upp samvinnu við Ísfélagið og fá þá til að skaffa skip að veiða namibískan kvóta. Namibíumenn áttu kvótann og gátu framselt hann hverjum sem er, þess vegna Ísfélaginu. Enginn í Samherja, utan Jóhannesar, var í þeim samskiptum við namibísku meðeigendurna að auðvelt væri að sannfæra þá um framhald á samstarfi ef einvaldurinn vildi annað. Á Íslandi var Þorsteinn Már forstjóri rifinn út af fundi með Færeyingum til að hlusta á upptöku Jóns Óttars. Namibíu-verkefnið var orðið brennandi hús.
Ísfélagið áttaði sig á hvaða mann Jóhannes hafði að geyma og skar snarlega á öll tengsl við hann. Þegar Jóhannes hafði brennt allar brýr að baki sér í sjávarútveginum skipti hann um ham og gerðist uppljóstrari á framfæri Helga og RSK-miðla, fabúleraði sögu sem mátti selja sem frétt.
Hvers vegna segir Helgi Seljan ekki frá hlut Jóhannesar í launadeilu Þorgeirs við Ísfélagið? Ástæðan er að Helgi og RSK-miðlar hafa alltaf kynnt Jóhannes sem peð í refskák Samherja að sölsa undir sig með mútugreiðslum namibískan kvóta. En það var Jóhannes sem rak útgerðina í Namibíu og taldi sig svo sterkan á svellinu að hann gæti skipt út Samherja fyrir Ísfélagið.
Frétt Helga Seljan um launadeilu Þorgeirs sýnir svart á hvítu ómerkilega blaðamennsku rannsóknaritstjóra Heimildarinnar. Helgi skáldar, felur sum gögn og skrumskælir önnur til að halda á lífi frásögn sem er heilaspuni blaðamanna RSK-miðla.