Brynjar segir ríkisstyrkta fjölmiðla orðinn að þungum bagga fyrir skattgreiðendur

frettinFjölmiðlar, InnlentLeave a Comment

Brynjar Níelsson lögmaður og fv. þingmaður, segir í pistli á facebook að fjölmiðlar séu orðnir nokkuð þungur baggi fyrir skattgreiðendur og spyr sig hvað landsmenn séu að fá fyrir alla þá 6-7 milljarðana sem kostað er til RÚV á hverju ári og hvort það sé þess virði. Lögmaðurinn veltir fyrir sér hvernig peningarnir myndu nýtast ef skattgreiðendur myndu leggja einkareknum fjölmiðlum til fjárhæðina sem fer í nefskattinn.

Margir hafa velt þessu fyrir sér að undanförnu og haft orð á því að slíkt fyrirkomulag væri mun lýðræðislega í eðli sínu, þ.e. skattgreiðendur fengju að greiða sinn nefskatt til fjölmiðils sem þeim finnst verðskulda upphæðina og/eða hafa unnið sér fyrir henni með heiðarlegri og upplýstri blaðamennsku.

Pistillinn í heild sinni:

Fjölmiðlar eru orðnir nokkuð þungur baggi fyrir skattgreiðendur. Þeir láta af hendi á sjöunda milljarð til RÚV á hverju ári, sem nemur nokkrum hjúkrunarheimilum, og nokkur hundruð milljónir til svokallaðra einkarekinna fjölmiðla, sem deila má um hvort sumir hverjir geti talist fjölmiðlar. En hvað erum við að fá fyrir alla þennan pening og er það þess virði?

Á RÚV fáum við að vísu gamla þætti úr safni sjónvarpsins sem sýna stemningu liðinna tíma. Má flokka þá undir menningarverðmæti og eru bæði fróðleikur og ágætis skemmtun. Þá er að finna þar skemmtiþætti þar sem stjórnandinn fær vini og félaga í heimsókn og helst þá sem geta talað illa um aðra og upphafið sjálfa sig um leið. Þess á milli reynir þáttatjórnandinn að niðurlægja eða gera lítið úr þeim sem eru honum ekki þóknanlegir á hverjum tíma og hlær mest sjálfur. Svo er þarna auðvitað fréttastofa sem virðist helst ganga pólitískra erinda þeirra sem vilja grafa undan öllum helstu atvinnugreinum þjóðarinnar, hvort sem það er orkuiðnaður, fiskveiðar, fiskeldi, landbúnaður eða ferðaþjónusta. Þetta er iðulega sama fólkið sem krefst aukinna útgjalda ríkisins en veit greinilega ekkert hvaðan peningarnir koma.

Hvernig skyldi nú peningarnir nýtast sem skattgreiðendur leggja einkareknum fjölmiðlum til. Þar er að finna fjölmiðil sem hefur talið sjálfum sér í trú um að stundi rannsóknarblaðamennsku en er bara áróðurspési fyrir skaðlega pólitík sem berst hatrammlega gegn tjáningarfrelsi annarra. Flestir aðrir miðlar eru bara að segja okkur um upphaf og slit ástarsambanda fólks sem fáir eða enginn veit hver eru, nema vera skyldi Sveinn Andri, sem við allir öfundum. Flest á þetta fólk sameiginlegt að tolla ekki út árið í þessum ástarsamböndum. Að öðru leyti endurflytja þeir efni úr samfélagsmiðlum og helst það ómerkilegasta sem þar er að finna.

Við hljótum að geta nýtt skattfé betur, kæra Lilja.

Skildu eftir skilaboð