Við áttum að hafna Hamastillögunni hjá Sameinuðu þjóðunum

frettinJón Magnússon, StríðLeave a Comment

Jón Magnússon skrifar:

Í leiðara Daily Telegraph í gær er fjallað um nauðsyn þess, að breska ríkisstjórnin haldi áfram að sýna fram á hversu fráleitar og óframkvæmanlegar kröfur um vopnahlé séu í stríðinu milli Ísrael og Hamas á Gasa.

Í leiðaranum segir eftirfarandi:

„Það er hryllilegt að óbreyttir borgarar skuli falla á Gasa. En ábyrgðin er algjörlega Hamas. Hamas samtökin gætu lokið stríðinu með því að gefast upp og leysa úr haldi meira en 200 gísla sem samtökin hernámu 7.október. Þeir gætu líka dregið úr hættu eigin borgara með því að hvetja þá til að flytja sig tímabundið til suðurhluta Gasa. Þess í stað eins ógeðfellt og það er þá ákváðu liðsmenn samtakanna að nota bæði gísla sína og íbúa á Gasa sem mannlega skildi.

Hamas er líka um að kenna allan skort á nauðsynjum þ.m.t. eldsneyti. Sagt er að samtökin séu með miklar birgðir og noti mikla orku til að lýsa upp víðtækt og umfangsmikið net neðanjarðarganga. Ísrael hefur líka sýnt fram á að Hamas staðsettu höfuðstöðvar sínar í neðanjarðarbyrgi undir helsta sjúkrahúsinu, Shifa sjúkrahúsinu, sem veldur beinni hættu fyrir sjúka og þá sem eru illa settir.

Það er skiljanlegt að fólk vonist til að það verði stund milli stríða (humanitarian „pause“) í átökunum, til að neyðarhjálp komist inn á Gasa svæðið. En vopnahlé kemur ekki til greina. Það mundi ekki aðeins gefa Hamas tækifæri til að endurskipuleggja liðssveitir sínar og undirbúa frekari eldflaugaárásir á Ísrael.

Margir þeirra sem krefjast þess að Ísrael leggi niður vopn eru óheiðarlegir. Eru til nokkur hernaðarleg umsvif Ísrael sem að gagnrýnendur þeirra vilja leyfa landinu að taka til að svara fyrir svívirðilega hryðjuverkaárás Hamas? Halda þeir virkilega að það sé einhver pólitísk lausn í sjónmáli milli Ísrael og samtakanna, sem vilja eyða Ísraelsríki af yfirborði jarðar? Ísraelsmenn vita nú, að yfirlýsingar og stefna Hamas um þjóðarmorð á Gyðingum er ekki tómt orðagjálfur.

Ísrael stendur nú frammi fyrir hugsanlegu stríði á mörgum vígstöðvum. Þeim liggur á að sýna fram á að þeir geti komið í veg fyrir árásir á Ísrael með því að sýna fram á ótvíræðan hernaðarlegan styrk og lausnir.

Það eru hagsmunir bæði Ísrael og Palestínumanna, að Ísrael verði leyft að eyða Hamas.“

Hér er ekki töluð vitleysan en bent á staðreyndir. Stríð er alltaf slæmt, en stundum er það því miður óumflýjanlegt. Bandaríkin mátu það svo þegar Japanir gerðu árás á flotastöð þeirra í Pearl Harbour á sínum tíma að það væri óumflýjanlegt fyrir þá að ganga milli bols og höfuðs á þeim sem bæru ábyrgð á þeirri fólksulegu árás. Þeir gerðu það og engum datt í hug á þeim tíma að krefjast þess að Bandaríkjamenn samþykktu vopnahlé þegar Japönum hentaði eða slíkt vopnahlé yrði algerlega á þeirra forsendum eins og tillaga Jórdaníu kvað á um varðandi vopnahlé hjá Sameinuðu þjóðunum.

Að sjálfsögðu hoppaði erkipópúlistinn Katrín Jakobsdóttir á vagn Hamasvænu tillögu Jórdana og vælir yfir því að utanríkisráðherra hafi ekki talað við sig. Einhverra hluta vegna sér sá ráðherra ekki ástæðu til að varða þá vegferð sem hann ákvað neinum rökum eða sýna fram á að afstaða Íslands í atkvæðagreiðslunni var pólitískt rétt.

Óneitanlega sérkennileg ríkisstjórn svo ekki sé meira sagt. Einhverntíma og það jafnvel fyrr hefði forsætisráðherra í ríkisstjórninni sagt: „Innan ríkisstjórnarinnar er ekki samstaða um neitt sem máli skiptir og því einboðið að hún segi af sér og fari frá.“

Skildu eftir skilaboð