Gyðingaofsóknir endurvaktar, eftir skamman svefn – með yfirlýsingu starfsfólks HÍ

frettinInnlendar3 Comments

Einar S. Hálfdánarson hrl. skrifar:

Í Bretlandi og Þýskalandi eru nú hafðar nánar gætur á þeim sem viðhafa hatursummæli um Ísraelsmenn. Þar líkt og hér er hatursorðræða og mismunun refsiverð.

Hvatt til gyðingahaturs

Ég hringdi til útlanda og sagði vini mínum frá yfirlýsingu starfsfólks HÍ til stuðnings Palestínu sem, í ljósi orðalags hennar, verður alls ekki öðruvísi skilin en sem fullur stuðningur við hryðjuverk Hamas. Hann áttaði sig samt ekki alveg; „38 eru ekki svo margir“. Hann hváði, skiljanlega, endurtekið þegar ég sagði töluna 338. Yfirlýsingin er sem sé gegn „ísraelskri nýlendustefnu og þjóðarmorði“. Fordæmingu á grimmilegum og raunar ólýsanlegum stríðsglæpum Hamas er þar hvergi að finna. En hins vegar er þar einhliða fordæming á öllu atferli Ísraels í 75 ár (frá stofnun). Starfsfólkið kveður það þekkt að akademískar stofnanir í Ísrael séu virkir þátttakendur og þar af leiðandi samsekar í „nýlendustefnu, landráni, þjóðernishreinsunum og aðskilnaðarstefnu Ísraelsríkis“. „Sem akademískt starfsfólk munum við sniðganga akademískar stofnanir í Ísrael og afþakka samstarf við ísraelskar menntastofnanir og akademískt starfsfólk“. Aðför þessa starfsfólks HÍ að gyðingum á sér engan líka í Íslandssögu síðari tíma að ég tel.

Gyðingahatur fer stig vaxandi um heim allan.

Hvaða löndum vill starfsfólk Háskóla Íslands vinna með?

Starfsfólk Háskóla Íslands mun á hinn bóginn fúslega vinna með öllum öðrum en gyðingum. Sem sé; starfsfólk HÍ mun framvegis vinna með Rússum sem hafa drepið og sært meir en hundrað þúsund manns í Úkraínu. Grimmileg örlög Mariupol og Bucha hafa verið metin og léttvæg fundin. Það mun líka eiga samskipti við Azera sem akkúrat þessa dagana reka meir en hundrað þúsund kristna Armena frá aldagömlum heimkynnum sínum. Sýrland þar sem 500 þúsund liggja í valnum er starfsfólkinu þóknanlegt. Þá mun fólkið óhikað eiga samskipti við Írani þar sem þúsundir hafa verið teknar af lífi undanfarin ár vegna mótmæla gegn ógnarstjórn öfgamúslima. Þar sem ungar konur barðar til bana fyrir rangan slæðuburð. Og líka Talibana. Ekki einu sinni Norður-Kórea hefur sætt slíkum kárínum sem Ísrael. – Ræður þetta starfsfólk hver fær að eiga samvinnu við HÍ? Fæ ég að koma þar með mínar óæskilegu skoðanir til stuðnings Ísrael?

Hvað veldur?

Ég er kannski ekki mjög hissa á afstöðu margra sem undir rita. Ég vísa til ummæla þeirra sem vilja Ísrael feigt. Sem trúa ekki stöku orði um Hamas morðsveitirnar. Segja ekkert barn hafa verið drepið og engar nauðganir framdar af Hamas piltunum. Fæstir virðast vita að meirihluti gyðinga í Ísrael hraktist þangað frá arabaríkjunum, ekki frá Evrópu. Spurningum um ofsóknir gegn samkynhneigðum telja þeir verða svarað seinna í þessu fína lýðræðisríki, Palestínu, þegar allir verða þar jafn réttháir undir vernd Hamas; já einmitt! „Þið lifið ekki eins og manneskjur. Þið lifið ekki einu sinni eins og dýr. Þið samþykkið samkynhneigð. Og svo gagnrýnið þið okkur?" Svo mælti Mahmoud Al-Zahar foringi í Hamas sem lætur verkin tala. Og íslenskir vinstrimenn og háskólakennarar neita að fordæma Hamas hryðjuverkasamtökin. – En eftir eyðingu Ísraelsríkis og endanlega lausn gyðingavandamálsins verða öll dýrin í skóginum vinir. 

Sema Erla Serdaroglu.

Hverjir undirrita?

Hver önnur en Sema Erla Serdaroglu skrifar fyrst undir hatursyfirlýsinguna? Þar er fleiri að finna. Dóttir alræmds austur-þýsks kommúnista er þarna einnig sem og fleiri sem því ríki tengdust nánum böndum. En flest bara fólk sem tekur afstöðu með nú tíðkanlegum hætti hér á Íslandi. Það gladdi mig að sjá engan úr lagadeild og bara tvö úr guðfræðideild sem ég bjóst ekki við miklu frá hvort eð er. – Í breska Verkamannaflokknum yrði hverjum þeim sem undirritaði yfirlýsinguna tafarlaust vikið úr áhrifastöðum eftir að gyðingahatur var þar gert útlægt, vonum seinna. 

Hverjar verða afleiðingar yfirlýsingarinnar?

Siðareglur Háskóla Íslands kveða á um að komið sé  fram við aðra af réttsýni og virðingu og þess gætt í störfum að einstaklingum sé ekki mismunað, t.d. vegna kyns, kynvitundar, kynþáttar, kynhneigðar, aldurs, fötlunar, þjóðernis, trúarbragða eða skoðana. [Þetta virðist þó ekki eiga við um gyðinga, eða hvað?]. Enginn vafi leikur á um að stjórnendur og siðanefnd HÍ munu grípa til viðeigandi ráðstafana ef ég veit rétt. 

Í Bretlandi og Þýskalandi (og vafalaust víðar) eru nú hafðar nánar gætur á þeim sem viðhafa hatursummæli um Ísraelsmenn. Þar líkt og hér er hatursorðræða og mismunun refsiverð. Hver á Íslandi sem í atvinnurekstri eða þjónustustarfsemi [menntun ekki undanskilin] neitar manni um vörur eða þjónustu til jafns við aðra á grundvelli þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna hans, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, fötlunar, kyneinkenna, kynhneigðar eða kynvitundar skal sæta sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum. 

Og hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, fötlunar, kyneinkenna, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2. árum. Ég efast ekki um það eitt andartak að ríkissaksóknari muni láta reyna á þetta borðleggjandi mál fyrir dómi. Það yrði fjölmennasti hópur sem ákærður hefði verið í einu máli á Íslandi. Enginn vafi er heldur á að fjölmiðlarnir munu spyrja ríkissaksóknara hvenær hún muni láta málið til sín taka.

Eða hvað?

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20.11.2023

3 Comments on “Gyðingaofsóknir endurvaktar, eftir skamman svefn – með yfirlýsingu starfsfólks HÍ”

  1. Þvílíkt bull…það er bara annað hvort í ökkla eða eyra …….

  2. Það er hvergi minnst á gyðinga í þessari yfirlýsingu háskólamannana. Bara að þeir fordæmi fjöldamorð Ísraela og að þeir ætli ekki að vinna með aðilum sem hjálpa til við þau.

  3. Athyglisvert að lesa þessa skýrslu sem er komin út frá Ísrael … Þeir eru búnir að lækka dánartöluna niður í 1200 manns .. ca helmingur þeirra var hermenn, lögreglumenn og eða öryggisverðir en allt fólk með vopn sem eru inn í þessari 1200 manna tölu.. Svo er komið út að í ruglinu þá skutu Ísrelskar þyrlur og skriðdrekar á allt sem hreyfðist með hellfire flugskeytum sem gerði það að verkum að fólk varð að Ísraelar sjálfir urðu að brunarústum í húsum eða bílum eða þá á víðavangi.. Sumir bloggarar á blog.is halda fast í 1400 manns og allt saklausir almenningur voru drepnir .. fólk með vopn geta ekki verið skráð sem saklaust fólk heldur partur af stríðinu.. og nú er líklega fjöldi Palestínumanna dauða komin yfir 15000k og enn að telja..

    Er allsekki að gera lítið úr dánum Ísrelum né dánum Palestínu fólki en öll dráp á saklausu fólki ætti að vera fordæmt af alþjóðasamfélaginu.. En svo virðist að það má ekki gagnrýna Ísrael .. Ótrúlegt nokk..

Skildu eftir skilaboð