Hvað kveikir í þjóð?

frettinGeir Ágústsson, PistlarLeave a Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Alda ofbeldis og óeirða hefur riðið yfir Dyflinni á Írlandi í kvöld. Er það í kjölfar þess að maður réðst á fimm manns, þar af þrjú börn á aldrinum 5-6 ára, fyrir utan grunnskóla á öðrum tímanum í dag. Skelfilegt, svo því sé haldið til haga.

Þetta hlýtur að fela í sér að venjulegt fólk í Dyflinni streymir út á göturnar og mótmælir aðgerðaleysi stjórnvalda gegn hræðilegum glæp. Fólk sem væri annars að slappa af með fjölskyldu sinni og njóta kvöldsins eða dagsins.

Athyglisvert, satt að segja. Írska þjóðin lét yfirvöld sín traðka óvenjulega harkalega á sér á veirutímum. Ekki alveg á kínverskan hátt, en í hið minnsta harkalega á mælikvarða Norðurlanda og jafnvel Norður-Evrópu.

Hvað segir þetta okkur?

Mögulega tvennt.

  1. Ef yfirvöld láta eitthvað hræðilegt koma fyrir smátt og smátt, samhliða passlegum áróðri og samhliða passlegum skerðingum, þá situr írska þjóðin inni og kyngir pillunni.
  2. En ef yfirvöld hafa ekki átt hlut í að skipulega keyra inn hið hræðilega og hafa ekki náð að undirbúa fólk þá fer allt í bál og brand.

Ég leyfi mér að heimfæra þessa athugasemd yfir á flest önnur vestræn ríki, og sérstaklega Ísland.

Við sem köllum okkur frjálslynd, umburðarlynd, upplýst og vísindalega sinnuð erum mögulega ekkert af þessu. Ef við fáum okkar fréttatilkynningar þá látum við smala okkur hljóðlaust í búr þar sem við sitjum eins lengi og til þarf.

En ef eitthvað óvænt kemur upp á með látum, og án undirbúnings um „viðeigandi” viðbrögð, þá látum við í okkur heyra.

Yfirvöld hljóta að taka eftir. Þau geta hægt og rólega svipt okkur eigum, tekjum, bílum og orku því þau undirbúa okkur fyrir slíkt. Þau forðast hið óvænta, því þá fáum við kinnhest og bregðumst við.

Minn lærdómur væri sá að reyna, eftir fremsta megni, að vera vakandi fyrir skilaboðum yfirvalda. Hvað eru þau að segja núna? Hvað þýðir það í raun? Er verið að smala okkur í búr eða búa okkur undir nýja tíma?

Hvað kveikir í þjóð? Lýðræðisástin? Nei. Viðbrögð við áróðri? Nei. Tekju- og frelsissviptingar? Nei.

Að láta skvetta á sig fötu af ísköldu vatni? Já.

Ráðið er er þá að túlka öll skilaboð yfirvalda eins og fötu af köldu vatni. Reynist vatnið volgt þá gott og vel. Reynist það í raun kalt: Spyrna við fótum.

En umfram allt: Ekki treysta þeim.

Skildu eftir skilaboð