Krefjast rann­sókna á eftirlitslausu lánshæfismati Creditinfo

frettinFjármál, InnlentLeave a Comment

Hagsmunasamtök heimilanna hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem skorað er á Persónuvernd að rannsaka ítarlega framkvæmd lánshæfismats Creditinfo og sérstaklega breytingar sem gerðar voru á dögunum.

Þá fara samtökin fram á að dómsmálaráðherra feli óháðum aðila að gera úttekt á tölfræðilíkaninu sem notað er við gerð lánshæfismats, sem allra fyrst.

Í yfirlýsingu Hagsmunasamtaka heimilannna eru fjórar athugasemdir gerðar við fyrrnefndar breytingar:

  • Að neikvæðar breytingar á lánshæfismati séu fyrirvaralausar og afturvirkar
  • Að skráningar á vanskilaskrá hafi áhrif lengur en starfsleyfi Creditinfo kveður á um
  • Að notkun „viðbótarupplýsinga“ sé viðameiri en starfsleyfi Creditinfo kveður á um
  • Að aldrei hafi farið fram óháð úttekt á lánshæfismatinu þannig að engar traustar og óháðar upplýsingar liggja því fyrir um áreiðanleika þess
Afturvirkar og fyrirvaralausar breytingar

Lánshæfismat lækkaði hjá 15% við breytingarnar. Það er ekki „lítill hluti“ heldur tugþúsundir einstaklinga og afleiðingarnar fyrir þá geta verið alvarlegar.  Í þessari nýju uppfærslu lánshæfismatsins er nú litið til eldri upplýsinga um vanskil einstaklinga en áður, eða svokallaðra “fyrrum skráninga” sem voru áður á vanskilaskrá en eru það ekki lengur vegna þess hve langt er liðið síðan eða vegna þess að viðkomandi kröfu hefur verið komið í skil.

Hagsmunasamtök heimilanna gagnrýna þessa fyrirvaralausu lækkun á lánshæfismati með tilheyrandi neikvæðum áhrifum fyrir hlutaðeigandi einstaklinga og gera alvarlegar athugasemdir við að hún sé gerð með afturvirkum hætti án þess að upplýsa þau sem verða fyrir því sérstaklega um breytinguna. Er því hér með skorað á Persónuvernd að rannsaka málið og úrskurða um réttmæti breytinganna.

Hámarkslíftími skráninga ekki í samræmi við starfsleyfi Creditinfo

Samkvæmt starfsleyfi Creditinfo gefnu út af Persónuvernd 1. mars 2023 má að hámarki hafa vanskil skráð á sjálfa vanskilaskránna í fjögur ár nema skuldinni hafi verið komið í skil innan þess tíma og skal þá afmá skráninguna þegar í stað.

Eftir að skráning hefur verið afmáð af vanskilaskrá er þó enn heimilt að nota sögulegar upplýsingar um slíka “fyrrum skráningu” við gerð lánshæfismats, en að hámarki í eitt ár frá því að hún var afmáð af vanskilaskrá. Þannig ætti sá tími sem skráning vanskila hefur neikvæð áhrif á lánshæfismat að geta orðið eitt ár að lágmarki en samtals fimm ár að hámarki.

Creditinfo hefur samt ákveðið að miða við lengri tímamörk um aldur “fyrrum skráninga” við gerð lánshæfismats og ber því fyrir sig að breytingarnar séu í samræmi við nýja reglugerð um vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust sem tók gildi 1. september 2023.

Hagsmunasamtökin heimilanna mótmæla þessari túlkun Creditinfo því í reglugerðinni koma hvergi fram nein tímamörk hversu gamlar “fyrrum skráningar” megi nota við gerð lánshæfismats, heldur “aðeins að því marki sem nauðsynlegt er til að framkvæma áreiðanlegt mat”.

Eina heimildin sem starfsleyfið veitir til að nota upplýsingar um “fyrrum skráningar” lengur en í eitt ár eftir afmáningu þeirra af vanskilaskrá er að þær má geyma í þrjú ár til viðbótar eingöngu til þess að verða við beiðnum frá skráðum einstaklingum um vitneskju um vinnslu persónuupplýsinga um sig og til að leysa úr ágreiningi um réttmæti skráningar, en ekki við gerð lánshæfismats.

Notkun viðbótarupplýsinga

Einstaklingum sem skrá sig inn í kerfi Creditinfo til að skoða upplýsingar um stöðu sína þar er almennt boðið að veita samþykki fyrir notkun “viðbótarupplýsinga” en í því felst að hinn skráði leyfir notkun víðtækari upplýsinga en annars væri heimilt við gerð lánshæfismats. Þar á meðal eru upplýsingar um vanskilasögu viðkomandi einstaklings.

Í þeim skilmálum sem notandinn samþykkir er þó sérstaklega tekið fram að það eigi aðeins við um þær upplýsingar um “fyrrum skráningar” sem félaginu er heimilt að geyma samkvæmt starfsleyfi útgefnu af Persónuvernd hverju sinni. Þar er hvergi vísað til neinnar reglugerðar.

Hagsmunasamtök heimilanna gagnrýna enn fremur harðlega aðferð Creditinfo við öflun samþykkis fyrir notkun viðbótaupplýsinga. Á vefsíðu Creditinfo er fólki boðið upp á frítt lánshæfismat með því að veita leyfi fyrir notkun viðbótarupplýsinga, sem er líka greiðsla þó með öðrum hætti sé. Ekki er sérstaklega varað við því að þá getur lánshæfismat viðkomandi lækkað vegna uppflettinga aðila út í bæ, sem af einhverjum ástæðum þurfa að kanna stöðu viðkomandi í kerfum Creditinfo.

Afturvirkni má ekki vera íþyngjandi

Þegar breytingar verða á lögum og reglum eins og þeim sem eiga við um starfsemi Creditinfo gildir almennt sú meginregla að þær megi ekki hafa afturvirk áhrif með íþyngjandi hætti. Ekkert mælir þó gegn afturvirkni ef hún er ívilnandi þannig að það komi sér betur fyrir þann sem verður fyrir áhrifum af breytingunni.

Af þessum sökum er í hæsta máta vafasamt að nota eldri upplýsingar en áður um vanskilasögu ef það leiðir til lækkunar lánshæfismats, ekki síst í ljósi þess að á þeim tíma sem þær upplýsingar voru skráðar voru engar reglur í gildi sem leyfðu framlengingu á notkunartíma þeirra og ekkert hefur breyst í raunheimum sem kallar á þessar breytingar.

Eftirlitslaust lánshæfismat

Þrátt fyrir að Creditinfo hafi um langt árabil gert lánshæfismat byggt á upplýsingum úr vanskilaskrá, hefur enginn óháður eða opinber aðili eftirlit með því að rétt sé staðið að verki við það.

Persónuvernd hefur bent á nauðsyn þess að fá óháðan aðila  til að gera úttekt á því tölfræðilíkani sem er notað við lánshæfismat, en virðist ekki telja sig búa yfir nægilegri sérþekkingu til þess. Þrátt fyrir að nauðsyn slíkrar úttektar hafi verið margítrekuð hefur enginn annar opinber aðili svarað kallinu.

Engar traustar og óháðar upplýsingar liggja því fyrir um áreiðanleika lánshæfismats heldur aðeins fullyrðingar frá fyrirtækinu Creditinfo, sem getur alls ekki talist forsvaranlegt að eigi þannig í reynd að hafa eftirlit með sjálfu sér.

Hagsmunasamtök heimilanna skora á Persónuvernd að rannsaka framkvæmd lánshæfismats til hlítar og sérstaklega þær breytingar sem voru nýlega gerðar á því. Jafnframt fara samtökin fram á að dómsmálaráðherra sem ber ábyrgð á framkvæmd laga um persónuvernd feli óháðum aðila sem allra fyrst að gera úttekt á því tölfræðilíkani sem er notað við lánshæfismat.

Hagsmunasamtök heimilanna

Skildu eftir skilaboð