Páll Vilhjálmsson skrifar:
Búið ykkur undir slæmar fréttir frá Úkraínu, segir Stoltenberg framkvæmdastjóri Nató. Úkraína gefur eftir á nær allri víglinunni sem er um 1000 km löng. Það hallar á Úkraínu í mannafla. Skotfæraskortur stórskotaliðs gerir vart við sig, en stríðið er einkum háð með þungavopnum.
Tvennt annað gerir Úkraínumönnum sérstaklega erfitt fyrir. Í fyrsta lagi þverr stuðningur frá vestrinu. Vopn, vistir og fjármagn renna ekki í jafn stríðum straumi til Garðaríkis og fyrstu mánuði stríðsins, sem verður tveggja ára í febrúar. Í öðru lagi er vaxandi óeining í Kænugarði. Selenskí forseti er gagnrýndur opinberalega, t.d. af Klitskó, borgarstjóra höfuðborgarinnar. Salusní yfirhershöfðingi er sagður í viðræðum við Rússa um friðarsamninga án aðkomu forsetans.
Ofmælt væri að segja Úkraínuher að hruni kominn. Þótt fréttir séu af liðhlaupi eru þær ekki af umfangi er gefur tilefni til að halda að uppgjöf sé yfirvofandi. Þrátt fyrir erfiða stöðu og skort á hergögnum er ekki annað að sjá en Úkraínuher sé enn vel bardagahæfur.
Á hinn bóginn. Ef baklandið gefur eftir, stjórnkerfið í Kænugarði, bitnar það fyrr en síðar á framlínuhermönnum. Öll opinber kerfi, hvort heldur efnahagskerfi eða varnarmál, þola óstjórn og óreiðu að einhverju marki. Fjárveitingar frá Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu halda innviðum Úkraínu gangandi og flestir fá sneið af kökunni. Viðtengd frétt gefur vísbendingu um að fjárstreymið, sem þegar hefur minnkað, verði enn minna á næstunni. Það gæti riðið baggamuninn. Eldmóð hugsjóna þarf á vígvellinum en heimavígstöðvarnar ganga fyrir fjármagni.
Þrýst er á Úkraínustjórn að fá Rússa að samningaborðinu til að bjarga því sem bjargað verður. Í erfiðri stöðu, að ekki sé sagt vonlausri, líktust samningar meira uppgjafaskilmálum fremur en friðarsamkomulagi. Hvað ef Pútín Rússlandsforseti sé áhugalaus um samninga? spyr þýska útgáfan Die Welt. Rússar telja sig á sigurbraut. Fjölmiðlar í Bjarmalandi birta greinar um eftirmála uppgjafar Garðaríkis.
Slæmu fréttirnar, sem Stoltenberg Nató-stjóri boðar, gætu verið upphafið að endalokum Úkraínustríðsins. Að lokum enda öll stríð með friði. En sum ríki er áttu sér tilvist fyrir stríð lifa ekki af friðinn.