Jón Magnússon skrifar:
Þá er runninn upp síðasti jóladagurinn 6. janúar. Þrettándinn.
Jólin standa frá kvöldi dags 24. desember til 6. janúar vegna þess, að austurkirkjan miðaði við fæðingardag Jesú þann 6. janúar en vesturkirkjan í Róm við 24. eða 25. desember eftir atvikum. Þetta var prakstískt í markaðssókn kirkjunnar á þeim tíma og allt gott um það að segja.
Það veit enginn hvenær ársins Jesús fæddist og ekki hvaða ár. Sennilega hefur hann fæðst 4 til 12 árum fyrr en miðað er við. En þetta skiptir ekki máli í sjálfu sér því helgisagan er jafnfalleg eftir sem áður og færir boð kristinnar trúar um frið og fyrirgefningu.
Á Spáni er þetta helsti dagur jólanna og kallaður dagur vitringanna (konunganna) en vitringarnir tóku í helgisögnum smám saman á sig mynd konunga. Jarðneskar leifar þeirra eru sagðar vera í dómkirkjunni í Köln. En Marco Polo taldi sig hins vegar vita hvar þær voru um 1300 e.kr. þar sem hann hafði rekist á grafhýsi þeirra í Íran, á ferð sinni til Kína.
Hvað sem líður trúverðugleika þessa þá skiptir okkur mestu þær staðreyndir, að Jesús fæddist, starfaði,gerði kraftaverk,flutti boðskap mannkærleika, friðar og fyrirgefningar og var tekinn af lífi með krossfestingu og það sem mestu máli skiptir. Reis upp frá dauðum, en með því var staðfest fyrirheit Guðs um fyrirgefningu synda og eilíft líf fyrir trú og góð verk.
Við skulum því kristið fólk njóta þess að eiga sameiginlega trúarhátíð um jól, sem á að minna okkur á grundvöll kristinnar trúar m.a. það, sem hefur týnst í umræðunni um aldir. Umræðan um "Guðs ríki", sem Jesús boðaði. "Guðs ríki" á jörðu: Hvað er það? Hvenær kemur það? Hvernig er það?
One Comment on “Þrettándinn og „Guðs ríki“”
Guðs ríki er innra með yður.