Geir Ágústsson skrifar:
Ráðherra bannaði fyrir ekki löngu síðan atvinnustarfsemi. Allir vissu í raun að það var ólöglegt en núna hefur það loksins verið skrifað í álit.
Sumir hafa kallað eftir afsögn þess ráðherra en það virðist bara vera undir þeim ráðherra komið. Ráðherrastarf er vel launað - af hverju að segja sig frá því?
Í stærra samhenginu sést auðvitað að ráðherrar geta bannað hvað sem þeir vilja og nema því sé mætt með mótmælum, kærum og látum að þá kyngja því allir. Veirutímar voru löng runa af ráðherrum og embættismönnum þeirra að banna atvinnustarfsemi, skólastarf, félagsstarf, kirkjustarf, ferðalög og jafnvel brúðkaupsveislur, og er þá upptalningin frekar takmörkuð.
Skilur fólk ekki að stjórnarskráin og lögin eru bara dauður pappír nema venjulegt fólk veiti yfirvöldum aðhald?
Það er ekki hægt að treysta yfirvöldum fyrir réttarríkinu - því að það gildi lög sem lýsa því skýrt hvað má og hvað má ekki.
Það er ekki hægt að treysta ráðherrum, embættismönnum, dómurum, sýslumönnum og lögreglumönnum - það þarf í sífellu að minna svona fólk á lögin og mannréttindin.
Réttarríkið byggist ekki á texta á pappír og fínum titlum. Það byggist á því að fólk sé á verði og vakandi yfir tilraunum hins opinbera til að kæfa, svæfa og slæva frjálst samfélag.
Það kemur ekki á óvart að ráðherra sem tók atvinnustarfsemi í sambandi fái að sitja áfram. Íslendingar létu kúga sig í 2 ár til að forðast veiru. Þeir eru góðir læmingjar. Þeir eiga fáa góða stjórnmálamenn. Þeir trúa ennþá á fjölmiðla. En ég sé bresti í þessari trúgirni og vona að þeir verði sem hraðast að stórum sprungum sem fá hana til að hrynja, gjarnan á einni nóttu.
En í millitíðinni er gott að tileinka sér lífsstíl þar sem réttlætiskennd og samviska er ríkjandi hugarfar, frekar en bara það að fylgja seinustu fyrirmælum yfirvalda.