Blaðamenn: formaður skattsvikari, varaformaður sakborningur

frettinInnlent, Páll Vilhjálmsson, PistlarLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Forysta Blaðamannafélags Íslands brýtur blað í 100 ára sögu verkalýðsfélaga hérlendis. Formaðurinn, Sigríður Dögg Auðunsdóttir, er skattsvikari og varaformaðurinn, Aðalsteinn Kjartansson, er sakborningur í byrlunar- og símastuldsmálinu. Skötuhjúin ráku blaðamann með flekklausan feril, Hjálmar Jónsson, sem gegndi starfi framkvæmdastjóra. Forystutvíeyki stéttafélags með ljót mál á sinni könnu vísa á dyr framkvæmdastjóra með hreinan skjöld.

Tilfallandi blogg afhjúpaði formann Blaðamannafélagsins í fyrravor. Í september játaði Sigríður Dögg skattsvik. Eftir játningu í Facebook-færslu neitaði formaðurinn að tjá sig um skattsvikin. Á formennskutíð sinni hefur Sigríður Dögg fordæmt að fólk í trúnaðarstöðum komi sér hjá spurningum blaðamanna um erfið mál. Tvöfalt siðgæði í sinni tærustu mynd. Hjálmar framkvæmdastjóri vakti máls á stöðu formannsins innan veggja blaðamannafélagsins og var látinn taka pokann sinn.

Sigríður Dögg leigði út á Airbnb fjórar íbúðir á Suðurgötu 8 í miðborg Reykjavíkur. Samtals 8 svefnherbergi voru í íbúðunum fjórum með svefnplássi fyrir 28 manns. Starfsemin á Suðurgötu líktist meira gistiheimilarekstri en íbúðaleigu. Heildarleiga fyrir sólarhringsleigu á íbúðunum, miðað við fulla nýtingu, var um 1000 bandaríkjadalir eða um 135 þúsund krónur. Leigutekjur má áætla að hafi verið um 4  milljónir kr. á mánuði, 40 til 50 milljónir kr. á ári. Starfsemin var ólögleg og ekkert var gefið upp til skatts.

Brot Sigríðar Daggar er meiriháttar en hún hlaut sérmeðferð hjá Skattinum, aðeins sekt en komst undan opinberri málshöfðun, sem margir aðrir í sambærilegri stöðu máttu þola.

Aðalsteinn Kjartansson varaformaður Blaðamannafélags Íslands fékk stöðu sakbornings um miðjan febrúar 2022 í byrlunar- og símastuldsmálinu. Hann kom sér undan réttvísinni í hálft ár, mætti ekki til yfirheyrslu fyrr en ágúst sama ár. Andlega veik eiginkona Páls skipstjóra Steingrímssonar byrlaði og stal síma skipstjórans í þágu RSK-miðla, RÚV, Stundarinnar og Kjarnans. Áramótin 2022/2023 sameinuðust Kjarninn og Stundin undir merkjum Heimildarinnar.

Aðalsteinn hefur aldrei gert grein fyrir vitneskju sinni um málið. Aftur hefur hann stefnt tilfallandi bloggara fyrir að fjalla um málavöxtu og krefst 2 milljóna kr. í bætur. Dómsmálið verður tekið fyrir í héraðsdómi Reykjavíkur í byrjun næsta mánaðar.

Blaðamenn RSK-miðla eru í meirihluta stjórnar Blaðamannafélags Íslands. Stjórnin er sjö manna. Meirihlutann skipa, auk Sigríðar Daggar og Aðalsteins, þau Stígur Helgason á RÚV og Bára Huld Beck á Heimildinni. Brottrekstur Hjálmars Jónssonar framkvæmdastjóra bar brátt að. Hann fékk ekki að gera stjórninni grein fyrir ágreiningi sínum og forystu tvíeykisins. Hjálmari var gert að hætta störfum samdægurs.

Sigríður Dögg og Aðalsteinn hlupu í felur í gær, eftir að hafa rekið Hjálmar. Mannlíf fjallaði um málið og sagði: ,,Hvorki náðist í Sigríði Dögg né Aðalstein Kjartansson við vinnslu fréttarinnar." Forysta verkalýðsfélags blaðamanna er á flótta undan eigin félagsmönnum sem skrifa fréttir um ráðsmennsku formanns og varaformanns, Sigríðar Daggar og Aðalsteins.

Öll ráð stéttafélags blaðamanna eru í höndum skattsvikara og sakbornings í alvarlegu refsimáli. Til skamms tíma töldu blaðamenn sér til tekna að afhjúpa óheiðarleika og spillingu í samfélaginu. Nú gildir að flæma þá úr starfi sem eru með hreinan skjöld og starfa heiðarlega.

Skildu eftir skilaboð