Þekking skilaði árangri í Grindavík

frettinInnlent, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Eftir hádegi á laugardag kynntu almannavarnir áætlun um að rýma Grindavík á mánudag. Áætlunin byggði á fyrirliggjandi gögnum og túlkun sérfræðinga að innan tíðar gæti dregið til tíðinda.

Atburðarásin var hraðari en viðbragðsaðilar gerðu ráð fyrir. Aðfaranótt sunnudags, um klukkan fjögur, var neyðarrýmingu hrint í framkvæmd. Ný gögn breyttu fyrra mati um tímann sem var til ráðstöfunar. Gosið hófst fjórum klukkustundum síðar, um klukkan átta að morgni.

Það munar um að hafa fjórar klukkustundir í ráðrúm áður en eldur kemur úr jörðu. Rýming gekk snurðulaust og mannslíf voru ekki í hættu. Einhverjum verðmætum, s.s. vinnuvélum við varnargarða, tókst að bjarga í tæka tíð. Án sérþekkingar og varnaðarorða vísindamanna hefði fyrirvarinn verið skemmri, e.t.v. alls enginn.

Atburðir aðfaranótt sunnudags undirstrika verðmætið sem felst í dugandi jarðvísindamönnum. Þeir eru einatt milli tveggja elda, í óeiginlegum skilningi. Þeir eru krafðir um forspá, hvað gerist næstu klukkustundir og daga, án þess að hafa gögn sem réttlæta að spá sé gefin út. Í annan stað eru jarðvísindamenn gagnrýndir fyrir að taka of djúpt í árinni, segja fyrir um atburði sem ekki raungerast.

Náttúran er á löngum köflum óútreiknanleg en rík eftirspurn er eftir fullvissu. Meiri þjálfun vísindamanna í umgengni við fjölmiðla, sem vilja vita það sem enginn veit, hefur skilað sér. Vísindamenn eru farnir að setja skýra fyrirvara í pælingar sínar um hver framvinda gæti orðið. Þeir bæta gjarnan við, en þetta vitum við ekki með vissu eða að atburðarásin gæti orðið önnur. Er það vel. Fólk vill fá upplýsta ágiskun um mögulega rás atburða og kann að meta þegar sérfróðir viðurkenna að engu sé hægt að slá föstu.

Eðlilega vill almenningur fréttir. En fréttir um framtíðina eru allar með fyrirvara. Einkum þegar náttúran á í hlut.

Skildu eftir skilaboð