Kristján Hreinsson skáld, skrifar áhugaverðan pistil á facebook síðu sína í dag, sem hefur fengið töluverða athygli. Skáldið segist ekki ætla að taka þátt í aumingja og fórnarlambavæðingunni á Íslandi, sem einkennist af hræsni og sýndarmennsku.
Kristján segir að fésbókarvinir hafi ráðist að honum opinberlega, vegna þess að hann deilir ekki sömu skoðunum.
Kristján kallar það frekjugang að palestínumenn sem hafa fengið hér landvistarleyfi, geri kröfu um ættbálkasameiningu, og segir að það sé ekki skylda íslendinga að fæða og klæða fólk sem ekki hefur í hyggju að launa fyrir góðverkin með öðru en heimtufrekju.
Pistilinn í heild sinni sem endar á ljóði skáldsins má lesa hér neðar:
Nokkrir svokallaðir vinir mínir hér á Facebook myndu aldrei lofa ljóð mín eða önnur skrif en þessir sömu vinir eru snöggir að ráðast að mér ef ég hef aðra skoðun en þeir.
Hér er skoðun sem ég leyfi mér að hafa: Ég vil ekki að Ísland sé bækistöð aumingjavæðingar, fórnarlambavæðingar, hræsni og sýndarmennsku. Í mínum huga felst engin lausn mála í Palestínu í því að íslenska ríkið taki við fólki sem vill flýja land. Ég læt allavega ekki selja mér þá hugmynd.
Ef menn, sem hér hafa fengið landvistarleyfi, gera þá kröfu að íslensk stjórnvöld leyfi heilu ættbálkunum að fylgja með í kaupunum, þá hika ég ekki við að kalla það frekju. Hver segir að það sé skylda okkar að fæða og klæða fólk sem ekki hefur í hyggju að launa fyrir góðverkin með öðru en heimtufrekju? Hver segir að Íslendingar þurfi nauðsynlega að skjóta skjólshúsi yfir trúhneigt fólk sem lítur niður á alla sem ekki aðhyllast þeirra trú?
Allt fólk sem þarf á samúð að halda fær samúð mína en ég tek ekki þátt í fórnarlambavæðingu sem segir að ég sé vondur maður ef ég segist ekki geta hjálpað öllum.
Tjaldbúðirnar við Alþingi hafa ekkert með mannúð að gera, þessi svokölluðu mótmæli eru frekja, lýðskrum og ókurteisi. Mér finnst það til háborinnar skammar að mönnum leyfist að tjalda framan við Alþingi Íslendinga. Við sýnum okkur sjálfum óvirðingu með því að samþykkja slíkt framferði. Í því sambandi er málstaður mótmælenda algjört aukaatriði.
Þeir sem hingað koma og skáka í skjóli þess að þeir telja sig vera fórnarlömb ættu að sjá sóma sinn í því að vera þakklátir og sýna gestgjöfum sínum virðingu. Þetta skýtur nefnilega allt nokkuð skökku við þegar þeir eru gestir þjóðar sem hefur fjölda flóttamanna á eigin landi - fjölskyldur sem flýja eldgos í sínum heimabæ.
Við Alþingi trúhneigðir tjalda
og tryggir í málstað sinn halda,
þar kvíða vill vekja
hin kvartandi frekja.
En hvers á svo þjóðin að gjalda?