Listin að halda sér óupplýstum, með aðstoð blaðamanna

frettinFjölmiðlar, Geir Ágústsson, Innlent2 Comments

Geir Ágústsson skrifar:

Ég vinn með vel menntuðu fólki sem fylgist með fréttum og segir frá því sem liggur því á hjarta. Stundum eiga sér stað hressandi skoðanaskipti en allt mjög yfirvegað og engin þörf á að verða sammála um alla hluti.

Til dæmis myndu flestir í minni vinnu, ef tilneyddir til að velja á milli Trump og Biden, velja Biden - lasið, elliært gamalmenni sem á bara að fá að fara á eftirlaun, eða í fangelsi, og hefur ólíkt Trump stofnað til margra nýrra stríðsátaka (sem er nánast það eina sem ætti að skipta umheiminn utan Bandaríkjanna máli þegar kemur að bandarískum stjórnmálum, og kannski eyðilegging yfirvalda þeirra á varaforðagjaldmiðli heimsins).

En oftar en ekki finnst mér fólk vita lítið. Það veit hvað er í fréttunum jú, en hefur ekkert á dýptina og ekkert utan hins þrönga sjónsviðs blaðamanna hjá stærri fjölmiðlum í sínu heimalandi. Það veit ekkert um bændamótmælin sem stífluðu Þýskaland um daginn. Það veit ekkert um gagnrýni á tal um hamfarahlýnun. Það vissi ekkert um sprauturnar á sínum tíma og veit varla enn þann dag í dag - telur þær hafa verið hrópandi vel lukkaðar. Sumir trúa því meira að segja enn þann dag í dag að þær hafi stöðvað smit.

Það er því ekkert mál að halda sér nokkuð óupplýstum, meðvitað eða ómeðvitað. Besta leiðin er sú að treysta blaðamönnum til að velja það sem telst fréttnæmt og hvað telst til samsæriskenninga eða áróðurs.

En það er hægt að ganga lengra en að bara fljóta um á fleyi fjölmiðlanna. Stundum er hægt að tileinka sér, meðvitað, þá list að halda sér óupplýstum: Neita að fylgja ábendingum, neita að kynna sér gögn eða hina hliðina. Neita að samþykkja tal sem hróflar við heimsmyndinni. Blaðamenn eru hérna til þjónustu reiðubúnir þegar þeir flagga drottningarviðtölum við margdæmda glæpamenn, troðfullum af lygum, útúrsnúningum og slúðri sem er allt búið að taka fyrir af óteljandi dómstólum og sérfræðingum og fleygja í ruslið. Fólk sem gleypir við þvælunni telur sig vera að tala fyrir hönd barna sem er búið að þráspyrja um allar þeirra skoðanir og tilfinningar og taka ákvörðun í kjölfarið.

Hérna er fólk viljandi og meðvitað að halda sér óupplýstu. Það er markvisst að velja að kynna sér ekki málin en hafa engu að síður löngun til að tjá sig um þau.

Þetta er listin að halda sér óupplýstum og margir eru nokkuð góðir í henni.

En gerir það nokkuð til? Jú, það gerir það, því í versta falli getur það leitt til þess að réttarríkið er tekið úr sambandi með hópþrýsting, hrópum og jafnvel líkamlega með því að hindra lögreglumenn í sínum störfum.

Sem betur fer spyrna margir við fótum. Oft var þörf en nú er nauðsyn.

2 Comments on “Listin að halda sér óupplýstum, með aðstoð blaðamanna”

  1. “ lasið, elliært gamalmenni sem á bara að fá að fara á eftirlaun, eða í fangelsi,“

    Skondið hvað þessi lýsing á betur við Trump heldur en Biden.

  2. Hatursáróður vinstri-sinnaðra fjölmiðla gagnvart Trump er vægðarlaus. Á meðan fær Joe Biden, sem er augljóslega elliær og algjörlega vanhæfur (og glæpamaður að auku), að sitja sem Forseti Bandaríkjanna gagnrýnislaust. Aðeins vinstri-sinnaðir klikkhausar sjá það ekki, enda er hugarheimur þeirra verulega sjúkur.

Skildu eftir skilaboð