Páll Vilhjálmsson skrifar:
Blaðamaður á Stundinni, nú Heimildinni, þurfti að fá leyfi hjá Kristni Hrafnssyni ritstjóra Wikileaks til að tala við danska blaðamenn. Kristinn veitti ekki leyfi og blaðamaðurinn, Bjartmar Oddur, talaði ekki við þá dönsku.
Upplýsingarnar um yfirvald Kristins yfir Stundinni koma fram í frétt á Vísi, eftir Jakob Bjarnar. Þetta er önnur frétt Jakobs um danska heimildamynd í fjórum hlutum um Wikileaks, sem sýnd var á Stöð 2. Tilfallandi fjallað um fyrri fréttina.
Seinni frétt Jakobs á Vísi byggir að stórum hluta á svörum dönsku blaðamannanna við spurningum Jakobs um samskiptin við íslenska fjölmiðlamenn, einkum Kristinn Hrafnsson og meintan rannsóknablaðamann Bjarmar Odd á Stundinni.
Dönsku blaðamennirnir gerðu heimildamynd um Sigga hakkara sem var í þjónustu Kristins ritstjóra Wikileaks. Siggi hakkari er sérstök manngerð, tölvusnjall með afbrigðum, þess vegna viðurnefnið, en líka barnaníðingur. Eftir að upp úr slitnaði í samstarfi Sigga hakkara og Wikileaks fór hakkarinn að vinna gegn lekadreifaranum, sem Julian Assange stofnaði en Kristinn Hrafnsson stýrir.
Kristinn réð Kristjón Kormák blaðamann í tveggja mánaða starf að ,,finna skít" um Sigga hakkara til að eyðileggja trúverðugleika hans. Hvernig barnaníðingur fékk yfir höfuð tiltrú íslenskra blaðamanna er opin spurning. Þar gæti skel hæft kjafti. Kristinn þurfti útgáfu og lepp til að koma neikvæðum upplýsingum um Sigga hakkara á framfæri. Það er ekki trúverðugt að blaðamaður á launum hjá Wikileaks, Kristjón Kormákur, skrifi gagnrýni á hakkarann undir eigin nafni. Þá koma til sögunnar Bjartmar Oddur og Stundin, nú Heimildin.
Grein sem skrifuð var af Kristjóni Kormáki undir handleiðslu Kristins Hrafnssonar ritstjóra Wikileaks birtist undir nafni Bjartmars Odds á Stundinni. Þetta er vísvitandi blekking, siðlaus blaðamennska.
Dönsku blaðamennirnir vildu tala við Bjartmar Odd, en hann sagði nei, Kristinn leyfir mér það ekki. Þá reyndu þeir dönsku að tala við Jón Trausta ritstjóra Stundarinnar, nú framkvæmdastjóri Heimildarinnar - Ingibjörg Dögg, eiginkona hans er ritstjóri. Jón Trausti neitaði dönsku blaðamönnunum um viðtal. Líklega fékk hann ekki heldur leyfi hjá Kristni.
Þeir dönsku klóruðu sér í kollinum og fóru þá leið að biðja um gögn er styddu staðhæfingar í greininni í Stundinni um Sigga hakkara. Þeir fengu ekkert. Jakob á Vísi hefur eftir þeim dönsku:
Það mætti búast við að rannsóknarblaðamaður myndi bjóða upp á einhver gögn sem bakka staðhæfingarnar upp, en ekki að það teldist duga að rannsóknarblaðamaður segðist hafa ótal sönnunargögn.
Hér hitta þeir dönsku íslenska blaðamennsku í hjartastað. Það er lenska íslenskra blaðamanna, einkum þeirra sem segjast rannsóknablaðamenn, að þykjast hafa heimildir en hafa þær engar. Helgi Seljan bjó til seðlabankamálið úr ekki-heimild.
Sá siður að þykjast hafa heimildir verður að listgrein í höndum Kristins Hrafnssonar ritstjóra Wikileaks en Helgi Seljan er lærlingur hans.
Árið 2018 rak á fjörur Kristins fyllibyttu og fíkniefnaneytanda sem hafði brennt allar brýr að baki sér, bæði í einkalífi og starfi. Ólánskrákan hafði þó eitt upp á að bjóða siðlausum blaðamönnum. Hann hafði starfað fyrir Samherja í Namibíu. Kristinn sá tækifæri að gera gull úr sorpi og kallaði í lærling sinn, Helga Seljan sem hafði nýlega tapað æru og tiltrú í seðlabankamálinu. Helgi vildi hefna og tók með sér RÚV í leiðangurinn.
Úr varð Namibíumálið í nóvember 2019 með Kveiks-þætti Helga á RÚV. Ásökunin var að Samherji hafi ,,greitt hundruð milljóna króna í mútur" til namibískra embættis- og stjórnmálamanna í skiptum fyrir veiðiheimildir í lögsögu Afríkuríkisins.
Nú er liðið á fimmta ár frá upphafi Namibíumálsins. Ekki ein heimild, segi og skrifa ekki ein, sýnir, eða gefur til kynna, að Samherji hafi greitt mútur. Tvær sjálfstæðar rannsóknir á Íslandi, hjá héraðssaksóknara og skattinum, hafa fínkembt gögn málsins og farið yfir allt bókhald Samherja frá árinu 2012. Ekkert fannst í ætt við mútur. Í Namibíu stendur yfir dómsmál vegna umboðs- og skattsvika þarlendra embættis- og stjórnmálamanna. Enginn frá Samherja er ákærður.
En hvað með Jóhannes Stefánsson uppljóstrara? Hann er fyllibytta og fíkill og aðeins heimild um ógæfumann. Menn eins og Jóhannes segja hvað sem er, svo lengi sem það gefur eitthvað í aðra hönd. Wikileaks hefur djúpa vasa.
Daginn eftir frumsýningu Namibíumálsins á RÚV var Kristinn mættur Morgunblaðsviðtal að útskýra sinn hlut í málinu. Í leiðinni afhjúpaði hann sérgrein sína. Gefum ritstjóra Wikileaks orðið:
Ég held líka almennt séð að þessi birting og þessi umfjöllun sé ákveðinn prófsteinn og prófraun á íslenskt samfélag, og einnig á íslenska fjölmiðla, hvernig þeir matreiða og verka þessi mál
Það var og. Matreiða og verka. Þykjast hafa heimildir. Láta lygi líta út eins og sannindi. Í viðtalinu gortar Kristinn sig af því að á Wikileaks séu ,,yfir 30.000 skjöl tengd starfsemi Samherja í Namibíu." Ritstjórinn vissi að enginn færi að skoða þessi skjöl. Almenningur átti að trúa í blindni að skjölin væru heimildir um mútugreiðslur. Í raun voru þetta aflatölur og markaðsverð á hrossamakríl og aðrar ómerkilegar upplýsingar sem sögðu ekki neitt um mútur. Ekki frekar en meint gögn Helga Seljan í seðlabankamálinu voru heimild um gjaldeyrissvik, eins og hann vildi vera láta árið 2012, þegar fyrsta aðför RÚV að Samherja hófst. Namibíumálið var önnur aðförin, byrlunar- og símastuldsmálið sú þriðja.
Danirnir, sem fjölluðu um Sigga hakkara, Kristinn og Wikileaks, virðast hafa óafvitandi veitt innsýn í siðleysi íslenskrar blaðamennsku. Tilfallandi hefur ekki séð dönsku þættina. Þeir eru sýndir í læstri dagskrá Stöðvar 2. Skýtur skökku við þar sem framleiðendur eru allar ríkissjónvarpsstöðvar á Norðurlöndum; NRK í Noregi, SVT í Svíþjóð og DR í Danmörku, sem hefur þættina í heildsölu. Hvers vegna ekki RÚV á Íslandi?
Jú, auðvitað, Glæpaleiti vill ekki veita almenningi upplýsingar um siðleysið sem gerði tvo fréttamenn RÚV að sakborningum í glæparannsókn. Helgi Seljan er ekki annar þeirra. Óvissa ríkir um réttarstöðu hans. Sama gildir um framtíðarhorfur rannsóknaritstjóra Heimildarinnar, áður Stundarinnar. Kristinn á Wikileaks gæti kannski notað lærlinginn sem varð meistari í villa á sér heimildir; þykjast heiðarlegur en vera eitthvað allt annað.