Ingibjörg Gísladóttir:
Dómar Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) hafa oft vakið furðu. Margir héldu að tilgangur dómstólsins væri einfaldlega að vernda almenning gegn óréttlátri meðferð af hendi ríkisvalds en hafa svo upplifað að dómstóllinn hafi tekið sér stöðugt meiri völd til skapandi túlkunar; reynt að sveigja lög einstakra landa að hugmyndaheimi þeirra er valist hafa til dómsins. Skýringin kom með skýrslu frá European Centre for Law and Justice (ECLJ) er kom út árið 2020.
Þar kom í ljós að minnsta kosti 22 af 100 fastadómurum við réttinn höfðu komið frá sjö félagasamtökum (NGOs), sem lögðu gjarnan mál fyrir réttinn og höfðu þeir dæmt í fleiri en 100 málum ættuðum frá samtökum sínum þegar þeir hefðu átt að tilkynna sig vanhæfa. Það að samtök Sorosar, Open Society, hefðu átt þar a.m.k. 12 dómara og fjármagnað hin samtökin er dómararnir komu frá olli bæði hneykslun og fjaðrafoki og fram kom krafa um umbætur innan MDE.
Í glænýrri fréttatilkynningu frá ECLJ kemur fram að árið 2021 hafi MDE samþykkt nýja ályktun um siðfræði dómara og skerpt á kröfum um heilindi, sjálfstæði og hlutleysi. Snemma á síðasta ári komu svo leiðbeiningar um hvernig skuli taka á tilraunum þeirra sem ekki eru málsaðilar til að hafa áhrif innan dómstólsins. ECLJ hafði upplýst að meðlimir frjálsra félagasamtaka ynnu oft með málsaðilum bak við tjöldin. Í janúar á þessu ári komu svo reglur um hvenær dómari skyldi teljast vanhæfur. Sjá má þær í grein 28 í hinum nýju reglum dómsins frá 22. janúar.
Sem dæmi um mál sem hugsanlega hefði fengið aðra afgreiðslu hefðu hinar nýju og endurskoðuðu reglur tekið fyrr gildi er mál sænsku ljósmæðranna er fengu ekki vinnu í Svíþjóð af því að þær höfnuðu því af siðfræðilegum ástæðum að taka að sér fóstureyðingar. Samkvæmt ECLJ lék mikill vafi á hlutleysi tveggja af þremur dómenda. Að auki telur ECLJ að mál sem gæti haft áhrif á alla læknastétt Svíþjóðar og jafnvel út fyrir landsteinana hefði átt að kalla á fjölskipaðan dómstól.
Bretar hóta því öðru hverju að segja sig frá dómstólnum. Hann hefur ítrekað komið í veg fyrir að afbrotamenn sem breskir dómstólar hafa dæmt til brottvísunar verði sendir úr landi og einnig komið í veg fyrir að hælisleitendur yrðu geymdir í Rwanda á meðan mál þeirra væru í afgreiðslu. Nýlega mátti t.d. lesa í Daily Mail að sumir meðlimir fyrsta barnanauðgaragengisins sem dæmt var í Rochdale séu þar enn, mörgum árum eftir að þeir losnuðu úr fangelsi, og vísi m.a. til réttar síns til fjölskyldulífs. Danir kölluðu reyndar líka fyrir nokkrum árum eftir útgöngu úr MDE vegna þess hve þeim var gert erfitt að losna við meðlimi Levakovic fjölskyldunnar.
Kjarninn fjallaði um það vandamál 2019 að Danir sætu uppi með tæplega 50 manna króatíska fjölskyldu, þar sem hver ættliðurinn á fætur öðrum stundaði ekki launaða vinnu en framfleytti sér með bótum, ránum og gripdeildum en Hæstiréttur Danmerkur vísaði til mannréttindalöggjafar Evrópu um rétt til fjölskyldulífs er senda ætti síbrotamennina úr landi.
ECLJ lofar að halda áfram að veita Mannréttindadómstól Evrópu aðhald.