Páll Steingrímsson skrifar:
Ég verð að viðurkenna það að ég var ánægður með orð Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur í Silfrinu á Ríkisútvarpinu á mánudaginn fyrir viku, þegar hún sagði við Sigmund Davíð Gunnlaugsson að menn ættu ekki að tjá sig um mál þegar litlar upplýsingar lægju fyrir. Þar vísaði hún til frétta um mann er tengdist ISIS hryðjuverkasamtökunum en honum hafði verið vísað úr landi eftir rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Ég er ekki frá því að þarna megi greina viðhorfsbreytingu hjá Þórhildi Sunnu.
Hvað á ég við með því, jú fyrir tveimur árum mætti hún í viðtal á vinnustað föður síns, Ríkisútvarpið, og fór þar mikinn vegna boðunar lögreglu á nokkrum blaðamönnum til yfirheyrslu. Þeir voru með stöðu sakbornings fyrir, „að hafa upp á einhverjum stolnum síma einhvers skipstjóra frá Samherja,“ eins og hún orðaði það.
Sú staðreynd að viðkomandi skipstjóri Samherja hafi verið endurlífgaður og í framhaldinu verið fluttur suður í sjúkraflugvél til þess að freista þess að bjarga lífi hans og síðan haldið í öndunarvél á gjörgæsludeild í nokkra daga var greinilega aukaatriði í huga hennar. Þess í stað taldi hún rétt að fara með málið alla leið til Mannréttindadómstólsins sem mér finnst nú reyndar dálítið sérstakt. Hugsanlega vissi þingmaðurinn Þórhildur Sunna ekki það sama og mannréttindalögmaðurinn Þórhildur Sunna, að mál sem eru til rannsóknar eru ekki tæk til meðferðar hjá Mannréttindadómstólnum. Sá lærir sem lifir og kannski ættu þær stöllur, þingmaðurinn og mannréttindalögmaðurinn, að taka spjall um þessa málsmeðferð.
En áðurnefnd ummæli Þórhildar Sunnu um ISIS liðan eru áhugaverð þegar horft er til þess að þingmaðurinn Þórhildur Sunna, fór einu sinni sem oftar fram á umræðu um spillingu á Alþingi þegar öll umræðan snéri að einu fyrirtæki, Samherja, sem var þá til rannsóknar. Á þeim tíma fannst henni ekkert athugavert við að tjá sig um mál sem var til rannsóknar hjá þar til bærum aðilum og dró ekki af sér í stóryrðum. Þá gladdist hún yfir ummælum vinar síns Drago Kos hjá OECD um að það væru Namibíumenn sem drægju vagninn við rannsókn á Samherja. Eins og sú rannsókn hefur þróast mætti spyrja hvort þeim skötuhjúum finnist það bara eðlilegasti hlutur í heimi að menn sitji í gæsluvarðhaldi í fjögur ár þarna suður frá? Hvað ætli mannréttindalögfræðingnum Þórhildi Sunnu þyki um slík vinnubrögð ? En það má velta fyrir sér hvort hún hafa sagt þessum vini sínum frá því að Alþingi Íslendinga veitti sérstakri fjárhæð til rannsóknarinnar á Samherja.
Ég hef trú á því að hefði hún gert það þá hefði nú vinur hennar sopið hveljur, því með slíku vinnulagi eru stjórnmálamenn farnir að ákveða forgangsröðun á sakamálum. Um leið setja þeir pressu á að eitthvað saknæmt finnist hjá þeim sem fjármagnið er eyrnamerkt og rannsóknaraðilar draga rannsóknina von úr viti í þeirri von að finna eitthvað saknæmt að lokum.
Kannski mannréttindalögmaðurinn skoði hvernig þessu er háttað annars staðar. Þá gæti hún áttað sig á því að Norðmenn gerðu þetta einu sinni og ákváðu í kjölfarið að þetta yrði aldrei gert aftur. Já, hún gæti tekið að sér að semja siðareglur um þessi mál, svo vel þekkir hún hvernig siðareglur virka. Allir vita að það eru mikilsverð mannréttindi, bæði fyrir sakborninga og brotaþola í sakamálum, að þau dragist ekki á langinn.
Ef Þórhildi Sunnu vantar upplýsingar um hvernig þeim, sem eru í þeirri stöðu líður, þá gæti hún rætt við blaðamannasakborninganna sem hún hefur nú tekið að sér að verja, bæði í sölum Alþingis og á Ríkisútvarpinu. Í framhaldi þess gætum við séð eins og eina grein eftir Þórhildi Sunnu um mikilvægi þess að misnota ekki andlega veika einstaklinga. Hún gæti sótt sér upplýsingar hjá vinum sínum, blaðamannasakborningunum, um slík vinnubrögð.
Batnandi mönnum er best að lifa og hugsanlega er þetta merki um breytta umræðuhefð hjá Píratanum Þórhildi Sunnu. Ég efast samt um það.