Viðurkennir Úkraína að hafa skotið niður flugvélina í Belgorod?

frettinErlent, Gústaf SkúlasonLeave a Comment

Gústaf Skúlason skrifar:

Fréttir hafa verið um rússnesku flugvélina sem skotin var niður á miðvikudag með þeim afleiðingum að 65 úkraínskir ​​stríðsfangar létu lífið nálægt borginni Belgorod. Yfirlýsing hefur komið frá Úkraínu sem má túlka sem viðurkenningu á því, að Úkraína hafi skotið flugvélina niður. Spurningarmerki eru um hvaða vopn voru notuð við skotárásina, Rússar segja vopnin frá Vesturlöndum.

Á miðvikudag var rússnesk IL-76 flugvél skotin niður nálægt borginni Belgorod í vesturhluta Rússlands, fjórum kílómetrum frá landamærunum að Úkraínu. Flugvélin er sögð hafa flutt 65 úkraínska stríðsfanga á leið í fangaskipti. Aðalritstjóri Russia Today, Margarita Simonyan, hefur birt nafnalista stríðsfanganna á Telegram.

Yfirlýsingin af mörgum talin viðurkenning

Úkraínska leyniþjónustan GUR skrifar í færslu á Telegram að ekki hafi verið tilkynnt um að flugvél með stríðsföngum væri á leiðinni. Ýmsir túlka orðalag yfirlýsingarinnar sem viðurkenningu á því, að það hafi verið Úkraína sem skaut vélina niður, að sögn BBC.

„Samkvæmt samningum hefðu Rússar átt að tryggja öryggi fanganna. Úkraína var ekki upplýst um nauðsyn þess að tryggja loftrýmisöryggi yfir borginni Belgorod í tiltekinn tíma eins og áður hefur verið gert í nokkur skipti.“

„tryggja loftrýmisöryggi“ þýðir, að Úkraína sjái til þess að ekki sé skotið á flugvélar í því loftrými sem tilkynnt er. Að sögn GUR er um vísvitandi tilraun Rússa til að auka óstöðugleika í Úkraínu og hafa áhrif á erlendan stuðning við Úkraínustríðið, þar sem Rússar hefðu átt að upplýsa Úkraínu um flutninginn. Volodymyr Zelenskí, forseti Úkraínu, sakaði Rússa um að „leika sér að lífi úkraínskra fanga, tilfinningum ættingja þeirra og tilfinningum samfélags okkar.“

Rússland: vestræn vopn voru notuð

Rússneski þingmaðurinn Andrey Kartapolov heldur því fram, vopnin sem hafi verið notuð til að granda flugvéllinni hafi annað hvort verið flaugar úr bandaríska Patriot-kerfinu eða þýska Iris-T, samkvæmt The Moscow Times. Kartapolov sendir fullyrðingar Úkraínumanna um að þeir hafi ekki verið upplýstir um ferð flugvélarinnar til baka til föðurhúsanna. Að hans sögn voru Úkraínumenn vel meðvitaðir um áformin. Enn hefur ekki tekist að staðfesta upplýsingarnar.

Skildu eftir skilaboð