„Entomophagy“ þ.e. skordýraát, finnst í stórum hluta Asíu og Afríku, en er sjaldgæft í hinum vestræna heimi. Síðustu ár hefur ESB greitt götur skordýra inn á matseðil Vesturlanda með samþykki fjögurra skordýrategunda sem fæðu. Byrjað er að prófa skordýraát í Svíþjóð, til dæmis fengu nemendur menntaskóla í Södertälje lirfur í hádegismat án þess að vera látnir vita, hvað þeir voru að borða.
Yum Bug í London er fyrsti veitingastaður heims sem byggir algjörlega á matarréttum gerðum úr skordýrum. Hugmyndin var reynd í fyrra í svo kölluðum „pop-up“ veitingastað, sem tókst það vel að ákveðið var að opna varanlegan veitingastað. Í augnablikinu býður veitingastaðurinn aðeins upp á engispretturétti eins og og hakk, steikur eða bita. Í nokkrum réttum eru steiktar engisprettur muldar í duft einnig notaðar sem bragðbætir sem stráð er yfir matinn.
„Sjálfbærasta prótein á jörðinni“
Sumir réttanna eru td. keisarsalat með engisprettuhakki, tacos með engisprettubitum, kebab með engisprettusteik, hummus með engisprettuhakki og perur með súkkulaði og engisprettudufti. Stofnendur skordýramatstaðarins, skordýrafræðingurinn Aaron Thomas og hönnuðurinn Leo Taylor, telja að matur úr skordýrum innihaldi meira prótein og minni fitu en annar matur. Þeir benda á, að „skordýr séu sjálfbærasta prótein á jörðinni.“ Taylor segist vilja „breyta skynjun fólks á skordýrum.“ Taylor segir:
„Stóra áskorunin með skordýr á Vesturlöndum er menningarleg hindrun. Við erum hér til að breyta skynjun fólks á skordýrum.“
Hins vegar er ekki alveg áhættulaust að borða skordýr þar sem sumar rannsóknir benda til þess að þau geti innihaldið þungmálma, þar á meðal blý, kvikasilfur, arsen og kadmíum. Sumar rannsóknir sýna einnig, að skordýr geta borið með sér mismunandi gerðir af bakteríum og veirum, þar á meðal lifrarbólguveiru. Fyrst og fremst ætti mesta áhættan að vera fyrir ofnæmissjúklinga til dæmis fólk sem er með ofnæmi fyrir skelfiski eða maurum.