Salwan Momika lifir en hvorki Svíar né Norðmenn vilja sjá hann

frettinErlent, Ingibjörg GísladóttirLeave a Comment

Ingibjörg Gísladóttir skrifar:

Það er ekki bara Rasmus Paludan sem veldur óeirðum í Svíþjóð með því að brenna Kóraninn. Um páskana 2022 grýttu þar múslimar lögregluna (konur og börn tóku líka þátt) og fleiri en 100 laganna verðir slösuðust og það jafnvel þótt Rasmus væri ekki kominn á svæðið. Auk þess var kveikt í lögreglubíl, aðrir rændir og rúður í þeim brotnar.

Rasmus virðist halda sig til hlés nú um stundir en annar hefur tekið við keflinu, hælisleitandi frá Írak, Salwan Momika að nafni. Hann er af kristnum uppruna en segist trúlaus. Að hans meiningu er allt of mikið af íslamistum í Svíþjóð, sömu öfgamennirnir er vilji útrýma kristnum í Írak séu líka þar og ekki síst í Malmö. Hann hefur fullyrt á X að dauði 150 ættingja sinna vegna elds er kviknaði í brúðkaupsveislu í Írak fyrir rúmum 3. mánuðum hafi ekki verið neitt óhapp. Eftir að hann brenndi Kóraninn  í Rosengård, Malmö 3. september síðastliðinn þá kom hópur ungra drengja saman þar og brenndu fjölda bíla, bæði á götunni og í bílastæðahúsi. Sjö hafa verið handteknir, 15- 18 ára, og ákærðir fyrir morðtilraun.

Expressen sagði frá því 27. mars að Salwan væri á leið úr landi og hyggðist sækja um hæli í Noregi. Einnig mátti þar lesa að fé hefði verið sett til höfuðs honum, þar á meðal þyngd Kóransins í gulli, að lögregluvernd hans hafi kostað fimm milljónir sænskra króna og að hegðun hans hefði verið einn þeirra þátta er seinkuðu inngöngu Svíþjóðar í NATO. Í stuttu viðtali segist hann hafa verið dæmdur í fimm ára útlegð frá Svíþjóð, bankareikningum sínum lokað, hælisumsóknin ógild og lögregluverndin þar með.

Er Salwan hvarf svo er hann kom til Noregs þá ályktuðu margir að hann hefði verið drepinn og mátti lesa um það í mörgum fjölmiðlum, en hið rétta var að norska lögreglan handtók hann 28. mars og geymir hann í lokuðu búsetuúrræði (reiknað er með fjórum vikum) þar til hægt verður að senda hann aftur til Svíþjóðar samkvæmt Dyflinarsamkomulaginu. Óvíst er þó að Svíar vilji taka við honum - þeir dæmdu hann jú í fimm ára útlegð og hvað gera Norðmenn þá?

Skildu eftir skilaboð