Fyrsta intífadan í Svíþjóð? Rasmus Paludan heldur kosningabaráttu sinni áfram

frettinErlent, Ingibjörg Gísladóttir1 Comment

Um páskana brutust út óeirðir í Linköping og Norrköping í Svíþjóð. Rasmus Paludan (dansk-sænskur) sem býður sig fram fyrir Stram Kurs í þingkosningunum í haust hugðist mæta á staðina og brenna eintök af Kóraninum. Áður en hann kom á staðina þá varð allt vitlaust, lögreglan var grýtt og upplifði sig í lífshættu - meira en 100 þeirra slösuðust. Kveikt var í lögreglubíl og aðrir rændir og rúður í þeim brotnar. Anders Ygeman, ráðherra innflytjenda- og aðlögunarmála, vildi meina að glæpamenn hefðu staðið fyrir óeirðunum en þar sem konur og börn sjást einnig á myndböndum grýta lögregluna þá heldur sú skýring ekki vatni. Kenning Rasmusar er að hér hafi verið um fyrstu sænsku intíföduna að ræða.

Rasmus, sem menn vilja meina að hafi misst hæfileikann til að hræðast eftir að hafa skaddast á heila í slysi, hyggst halda kosningafundum sínum (og Kóranbrennunum) áfram. Hann fékk smá bakslag er lögreglan bannaði honum að koma til Borås en dómstóll sá ekki forsendur til að banna sænskum ríkisborgara sem ekki hefur verið dæmdur fyrir eitt eða neitt í landinu að fara hvert sem hann vildi. Lögreglan hefur því leyft kosningafundi hans en færir þá til svæða sem hún getur varið. Er Rasmus hélt fund í Borås hinn 12 maí þá var honum stillt upp á árbakka í Stadtsparken (sem var lokað), en hinum megin árinnar Viskan safnaðist fólk saman. Margir reyndu að synda yfir ána til að reyna að taka í lurginn á Rasmusi en voru handteknir skv. frétt á RÚV þeirra Svía sem kallar Rasmus alltaf hægriöfgamann. RÚV kallar hann nú þjóðernisöfgamann en kynnti hann fyrst sem fasista sem vildi útrýma múslimum.

Vill bjarga sænskri æsku

En hvað segir Rasmus sjálfur? Í nýlegu tæpra 50 mínútna viðtali (á sænsku) má fræðast um skoðanir hans. Rasmus hafði verið bannað að koma til Svíþjóðar en eftir að það kom í ljós að hann hafði lengi verið sænskur ríkisborgari þá einbeitir hann sé að Svíþjóð, sem hann segir að sé í mun verra ástandi en Danmörk. Hann segir að ef menn vilji ekki að Svíþjóð verði múslímskt land þá verði að breyta um kúrs því múslimar fjölgi sér mun meira en innfæddir. Hann segir að sér hafi runnið blóðið til skyldunnar og vilji ekki að sænsk æska þurfi að þola niðurlægingarrán múslimsku innflytjendanna.

Hann segist ekki vera neinn öfgamaður, heldur frjálslyndur og þjóðrækinn og ef kjósendur fengju að hlusta á sig þá myndi sjást að þeir væru sér sammála. Hann vill setja stopp á aðstreymi ættingja innflytjenda (s. anhörigindvandring) og á hælisveitingar. Einnig vill hann að glæpamenn verði sendir heim hafi þeir annan ríkisborgarrétt en sænskan og einnig þeir sem ekki skila neinu til þjóðfélagsins. Hann segir að það sé leyfilegt að gagnrýna íslam og segir að menn skilji ekki hvaða hlutverki trúin gegni í lífi múslima. Hún sé ekki bara hluti persónuleikans heldur kjarni hans og því bregðist sanntrúaðir svo illa við er hann brennir Kóraninn. Lög Allah séu alltaf æðri lögum manna.

Hann segir að fjölga þurfi í lögreglunni og útvega henni vatnskanónur, táragas og annan búnað svo hún geti aftur náð völdum. Ástandið í landinu sé aktívisma feministana að kenna sem hafi gert sænska karlmenn að þeim kvenlegustu í heimi. Það sé lygi að kynin séu eins. Rasmus hefur létt sig um fjöldamörg kíló því hann vill vera sænskum karlmönnum góð fyrirmynd - sterkur og hugaður. Hann segist vera á aftökulista salafistanna í Al Qaeda og fái alls kyns hótanir en upplifi sig sem öruggan í Danmörku en verði að fara varlega í Svíþjóð þar sem lögreglan sé svo lífhrædd að hún vonist til að hann verði drepinn.

Sumarið gæti orðið viðburðaríkt í Svíþjóð.

One Comment on “Fyrsta intífadan í Svíþjóð? Rasmus Paludan heldur kosningabaráttu sinni áfram”

Skildu eftir skilaboð