Musk tekur upp baráttu gegn hæstarétti Brasilíu

Gústaf SkúlasonErlent, Gústaf Skúlason, Ritskoðun, SamfélagsmiðlarLeave a Comment

Tjáningarfrelsinu í Brasilíu er ógnað, þegar æðsti dómstóll landsins herjar á samfélagsmiðilinn X. Elon Musk hefur ákveðið að bregðast við og tekur upp baráttu gegn brasilískum yfirvöldum.

Á laugardaginn bárust þær fréttir að Hæstiréttur Brasilíu hafi farið fram á að samfélagsmiðillinn X lokaði nokkrum reikningum og sé bannað að birta upplýsingar um hvers vegna, segir í frétt Reuters.

Alexandre de Moraes. Mynd © Marcelo Camargo, CC 3.0)

Alexandre de Moraes, hæstaréttardómari, úrskurðaði þetta. Ljóst er um hvaða reikninga er að ræða eða hvað þeir hafa gert, en de Moraes hefur verið drifkrafturinn í að ráðast gegn álitsgjöfum sem hafa tekið afstöðu með fyrrverandi forseta landsins, Jair Bolsonaro.

Yfirlýsing X

X hefur sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu vegna ritskoðunar Hæstaréttar Brasilíu:

„X Corp. hefur með dómsúrskurði neyðst til að loka ákveðnum vinsælum reikningum í Brasilíu. Við höfum tilkynnt þessum reikningum, að við höfum gripið til þessara aðgerða.

Við vitum ekki hvers vegna skipun um þessar hindranir hefur verið sett. Við vitum ekki hvaða innlegg eru talin brjóta í bága við lög. Okkur er bannað að segja hvaða dómstóll eða dómari gaf út úrskurðinn eða á hvaða forsendum. Okkur er bannað að segja hvaða reikningar eiga í hlut. Okkur er hótað dagsektum ef við framfylgjum ekki skipuninni.

Við teljum að slíkar skipanir séu ekki í samræmi við „Marco Civil da Internet“ eða brasilísku sambandsstjórnarskrána og við munum ganga gegn skipunum löglega, þar sem því verður við komið. Íbúar Brasilíu, óháð pólitískum viðhorfum þeirra, eiga rétt á málfrelsi, réttlátri málsmeðferð og gagnsæi frá eigin yfirvöldum.“

Musk í baráttuham

Eigandi X, Elon Musk, ætlar ekki að samþykkja þessa árás á tjáningarfrelsið. Í færslu á X-inu (sjá að neðan) skrifar hann, að de Moraes hafi hótað háum sektum, að handtaka starfsmenn X og loka algjörlega fyrir aðgang að X í Brasilíu. Musk hótar að birta allar ólöglegar beiðnir sem de Moraes hefur gert og útskýra hvernig þær ganga gegn lögum í Brasilíu.

Í annarri færslu (sjá að neðan) skrifar Musk að X muni brátt birta allar þær kröfur sem de Moraes hefur sett fram. Musk skrifar:

„Þessi dómari er ósvífinn og hefur ítrekað svikið stjórnarskrá Brasilíu og þjóðina. Hann ætti að segja af sér eða verða ákærður.“

Brasilía á barmi einræðis

Michael Shellenberger skrifar á X (sjá neðar):

„Í dag, 6. apríl 2024, tilkynnti X hlutafélag, áður þekkt sem Twitter, að brasilískur dómstóll hefði neytt það til að „loka á ákveðnum vinsælum reikningum í Brasilíu.“ Innan við klukkustund síðar tilkynnti eigandi X, @ElonMusk, að X myndi andmæla skipun dómstólsins og aflétta öllum takmörkunum. Musk sagði:

„Þar af leiðandi munum við líklega missa allar tekjur í Brasilíu og verðum að leggja niður skrifstofu okkar þar. En meginreglur skipta meira máli en hagnaður.“

Hæstiréttur Brasilíu gæti hvenær sem er lokað öllum aðgangi að X/Twitter fyrir íbúa Brasilíu. Það er ekki ofsögum sagt, að Brasilía sé á barmi einræðis í höndum alræðis hæstaréttardómara að nafni Alexandre de Moraes.“

 

Skildu eftir skilaboð