Harvard traðkar á sannleikanum

frettinCOVID-19, Erlent, Krossgötur1 Comment

Erling Óskar Kristjánsson skrifar:

„Ég er ekki lengur prófessor í læknisfræði við Harvard. Einkunnarorð Harvard er ‘Veritas’, sem er sannleikur á latínu. En nú hef ég uppgötvað að maður getur verið rekinn fyrir að segja sannleikann.”

Með þessum orðum hefst frásögn Martin Kulldorffs, líftölfræðings og faraldurfræðings, á því hvernig hann barðist við að halda í sannleikann meðan heimurinn týndi áttum sínum á tímum Covid faraldursins. Hér verða gerð skil á sögu hans.

Lokun skóla

Þann 10. mars 2020, áður en nokkur yfirvöld hvöttu til þess, lýsti Harvard því yfir að skólinn myndi „hætta með kennslu í eigin persónu og færa sig yfir í fjarkennslu.“ Um öll Bandaríkin fylgdu háskólar, skólar og ríkisstjórnir fordæmi Harvard.

Kulldorff segir að það hafi verið ljóst, strax í upphafi árs 2020, að veiran myndi að lokum breiðast út um allan heim, og að það væri tilgangslaust að reyna að bæla hana niður með útgöngubönnum. Einnig var ljóst að útgöngubönn myndu valda gríðarlegum aukaskemmdum, ekki aðeins á menntun heldur einnig á lýðheilsu, þar með talið meðferð við krabbameini, hjarta- og æðasjúkdómum og geðheilsu. Við munum glíma við skaðann sem varð áratugum saman. Börnin okkar, aldraðir, millistéttin, verkafólkið og fátæka fólk um allan heim—öll munu þjást.

Skólar lokuðust í mörgum öðrum löndum líka, en þrátt fyrir harða alþjóðlega gagnrýni hélt Svíþjóð sínum skólum og dagvistunum opnum fyrir sín 1,8 milljón börn, á aldrinum eitt til 15 ára. Hvers vegna? Þótt hver sem er geti smitast, var vitað árla árs 2020 að það væri þúsundfaldur munur á dánartíðni ungra og aldraðra vegna Covid. Börn stóðu frammi fyrir óverulegri hættu af veirunni, en það að trufla menntun þeirra myndi valda þeim ævilöngum skaða—sérstaklega börnum þeirra sem áttu ekki efni á einkaskólum eða einkakennurum, og höfðu ekki tök á að kenna þeim heima.

Hver var útkoman á vorinu 2020? Með opna skóla varð ekki eitt einasta Covid-dauðsfall í aldursflokknum 1-15 ára í Svíþjóð, auk þess sem dánartíðni meðal kennara var hið sama og meðaltal annarra starfsstétta. Byggt á þessum staðreyndum, sem greint var í skýrslu frá Lýðheilsustofnun Svíþjóðar sem birt var þann 7. júlí 2020, hefðu allir skólar í Bandaríkjunum átt að opna aftur. Kulldorff útskýrir að það að opna ekki skólana aftur hafi leitt til mikils lærdómstaps í Bandaríkjunum, sérstaklega meðal barna úr lág- og millistétt. Þessi áhrif sáust ekki í Svíþjóð.

Svíþjóð var eina stóra vestræna landið sem hafnaði lokunum á skólum og öðrum lokunum til að einbeita sér að eldri borgurum. Niðurstaðan á þessari ákvörðun liggur nú fyrir. Umframdauðsföll í Svíþjóð voru þau lægstu meðal stórra evrópskra landa í faraldrinum, og helmingi færri en í Bandaríkjunum. Covid dauðsföll í Svíþjóð voru undir meðallagi, en landið slapp við auka dauðsföll vegna lokana.

En þrátt fyrir þetta birti hið Harvard-ritstýrða New England Journal of Medicine grein þann 29. júlí 2020 eftir tvo prófessora frá Harvard um það hvort grunnskólar ættu að opna aftur, þar sem ekki var orði minnst á Svíþjóð. Þetta er eins og að hunsa samanburðarhópinn sem fékk lyfleysu þegar nýtt lyf er metið. Það er ekki leiðin að sannleikanum.

Þöggun á sérfræðingum sem studdu sænsku leiðina

Þetta vor studdi Kulldorff sænsku nálgunina í pistlum sem birtust í heimalandi hans, Svíþjóð. En þrátt fyrir að vera prófessor við Harvard, fékk hann skoðanir sínar ekki birtar í bandarískum fjölmiðlum. Tilraunir hans til að dreifa sænsku skýrslunni um skóla á Twitter leiddu til þess að hann var settur á svartan lista sem kom í veg fyrir að tístin hans gætu „trendað” (komist á lista yfir vinsæl tíst). Í ágúst 2020 birtist loks grein hans um lokun skóla og Svíþjóð hjá CNN—en ekki því CNN sem þú ert að hugsa um. Hann skrifaði hana á spænsku, og CNN-Españolbirti hana. CNN-English hafði ekki áhuga.

Martin var ekki eini lýðheilsusérfræðingurinn sem gagnrýndi lokun skóla og aðrar óvísindalegar aðgerðir. Scott Atlas notaði vísindalegar greinar og staðreyndir til að mótmæla lýðheilsuráðgjöfum í Hvíta húsinu undir stjórn Trump, en árangurinn var lítill. Þegar 98 af starfsfélögum hans við Stanford réðust á Atlas með óréttlætum hætti í opnu bréfi sem bauð ekki upp á eitt einasta dæmi um hvar hann hafði haft rangt fyrir sér, kom Kulldorff honum til varnar í nemendablaðinu Stanford Daily. Kulldorff lauk bréfinu með því að benda á eftirfarandi:

„Meðal faraldursfræðinga hafa margir okkar lengi talað fyrir aldursmiðaðri stefnu, og ég myndi glaður rökræða þetta við einhvern af þessum 98 undirskriftaraðilum. Meðal stuðningsmanna er einn fremsti faraldursfræðingur heims, Sunetra Gupta, prófessor við Oxford-háskóla. Gerandi ráð fyrir því að þeir séu ekki haldnir fordómum gagnvart vísindakonum með litað hörund, hvet ég starfsfólk Stanford og nemendur til að kynna sér skoðanir hennar.”

Enginn af þessum 98 undirskriftaraðilum þáði boð hans um ræða málin. Í staðinn sendi einhver við Stanford kvörtun til yfirmanna Kulldorff við Harvard-háskóla, sem var ekki skemmt.

Kulldorff var hins vegar rétt að byrja. Ásamt Sunetra Gupta og Jay Bhattacharya við Stanford skrifaði hann Great Barrington-yfirlýsinguna, þar sem rök voru færð fyrir aldursbundinni markvissri vernd í stað almennra útgöngubanna og lokanna. Til viðbótar settu þau fram tillögur um það hvernig betur mætti vernda aldraða, meðan börn og ungt fólk myndi lifa næstum eðlilegu lífi.

Þeir tilburðir sem höfðu dugað til að þagga niður í andófsröddum fram að þessu, dugðu ekki á Great Barrington-yfirlýsingunni. Það er auðvelt að afskrifa einstaka vísindamenn, en ómögulegt að hunsa þrjá reynda faraldursfræðinga frá þremur fremstu háskólum heims. Yfirlýsingin gerði það ljóst að engin samstaða fyrirfannst um lokun skóla og marga aðrar íþyngjandi sóttvarnaraðgerðir. Viðbrögðin við yfirlýsingunni voru hins vegar hörð, og árásirnar jukust og urðu jafnvel ærumeiðandi. Francis Collins, sem stýrir NIH en hefur takmarkaða reynslu af lýðheilsufræðum, kallaði þá „jaðarsetta faraldursfræðinga” og bað samstarfsmenn sína um að birta eyðileggjandi niðurrif (e. „a devastating published takedown”) á yfirlýsingunni. Sumir við Harvard hlýddu.

Áberandi faraldursfræðingur við Harvard kallaði yfirlýsinguna „öfgafullt jaðar sjónarmið“, og líkti henni við andasæringu til að reka út illa anda. Meðlimur við Heilsu- og mannréttindamiðstöð Harvard, sem hafði talað fyrir lokunum skóla, ásakaði Kulldorff um að vera „að trölla“ (e. „trolling”), að aðhyllast „sérkennilegar stjórnmálaskoðanir“, og sakaði hann ranglega um að hafa verið „tældur… með peningum frá Koch“, „ræktaður af hægri sinnuðum hugveitum“, og „vilja ekki rökræða við neinn“. Það er merkilegt að Kulldorff hafi verið sakaður um að vera hægrisinnaður fyrir að hafa áhyggjur af þeim sem eru verr settir og fóru verst út úr sóttvarnaraðgerðum. Með sömu rökum mætti halda því fram að Sósíaldemókratar í Svíþjóð væru hægri flokkur.

Þrátt fyrir harða gagnrýni vísindamanna, stjórnmálamanna og fjölmiðla, safnaði Great Barrington-yfirlýsingin næstum milljón undirskriftum, þar á meðal tugþúsundum frá vísindamönnum og heilbrigðisstarfsfólki. Þeir voru ekki eins einangraðir og þeir höfðu haldið.

Höfundar Great Barrington-yfirlýsingarinnar. Frá vinstri: Dr. Martin Kulldorff (Harvard), Dr. Sunetra Gupta (Oxford) og Dr. Jay Bhattacharya (Stanford)

Þrátt fyrir þetta mótlæti segist Kulldorff hafa fengið meira af jákvæðri en neikvæðri endurgjöf frá Harvard. Meðal annars kom stuðningur frá fyrrum forseta Faraldursfræðideildar háskólans—skurðlæknis sem sérhæfir sig í einhverfu, sem sá með eigin augum skaðann sem sóttvarnaraðgerðirnar ollu sjúklingum sínum. Þótt einhver stuðningur hafi verið á opinber, var hann að mestu bak við tjöldin frá starfsfólki skólans sem vildi ekki tjá sig opinberlega.

Fórnaði akademískum ferli fyrir sannleikann

Tveir samstarfsmenn Kulldorff við Harvard reyndu að skipuleggja kappræður milli hans og annarra kennara, en eins og við Stanford, var enginn til í ræða málin. Boðið er enn opið. Kulldorff segir að almenningur ætti ekki að treysta vísindamönnum—ekki einu sinni vísindamönnum frá Harvard—sem eru óviljugir til að ræða stöðu sína við samstarfsmenn.

Fyrrverandi vinnuveitandi hans Kulldorff, Mass General Brigham sjúkrahúsið, veitir flestum kennurum við læknaskóla Harvard atvinnu. Það er stærsti einstaki móttakandi fjármagns frá NIH—yfir 1 milljarð dollara á ári frá bandarískum skattgreiðendum.

Rochelle Walensky, einn af stjórnarmönnum sjúkrahússins og prófessor við Harvard sem hafði setið í ráðgjafaráði NIH undir stjórn Collins, tók þátt í einhliða „rökræðum“ við Kulldorff. Í kjölfar viðtals sem útvarpsstöð í Boston tók við Kulldorff, kom Walensky fram sem opinber fulltrúi sjúkrahússins til að andmæla honum, án þess að gefa honum tækifæri til að svara. Nokkrum mánuðum síðar var hún skipaður stjórnandi CDC.

Á þessum tímapunkti var Kulldorff ljóst að hann stóð frammi fyrir vali: raunveruleg vísindi, eða akademískur ferill. Hann valdi vísindin. Hann spyr hvað vísindin séu, ef við eltumst ekki auðmjúklega við sannleikann?

Á áttunda áratugnum starfaði Kulldorff fyrir mannréttindasamtök í Gvatemala. Þar aðstoðaði hann fátæk verkalýðsfélög, kvennréttindahreyfingar, nemendur og trúarleg samtök. Hlutverk samtakanna var að vernda þá sem töluðu gegn morðum og mannránum sem framkvæmd voru af herskárri hægri sinnaðri einræðisstjórn landsins, sem var harðlega gagnrýnd á alþjóðlegum vettvangi. Þrátt fyrir að herinn hafi hótað þeim, stungið tvo samstarfsmenn hans og kastað handsprengju inn í húsið þar sem hann bjó og vann, lét hann ekki fæla sig í burtu frá þeim hugrakka fólki sem hann var að aðstoða.

Kulldorff útskýrir að hann hafi valið að stofna lífi sínu í hættu til að hjálpa við að vernda viðkvæmt fólk. Til samanburðar var tiltölulega auðvelt val að stofna akademískum ferli sínum í hættu til að gera slíkt hið sama á tímum faraldursins. Þótt aðstæðurnar væru síður dramatískar og ógnvekjandi en þær sem hann stóð frammi fyrir í Gvatemala, voru mun fleiri líf í húfi.

Rekinn frá CDC

Á meðan lokanir voru umdeilda viðfangsefni ársins 2020, kom upp ný deila árið 2021: Covid bóluefnin. Í meira en tvo áratugi hefur Kulldorff aðstoðað CDC og FDA við að þróa eftirlitskerfi þeirra fyrir bóluefni sem eru komin á markað. Kulldorff telur að bóluefni séu mikilvæg læknisfræðileg uppfinning sem leyfir fólki að öðlast ónæmi án þeirrar áhættu sem fylgir því að veikjast. Hann segir að bóluefni gegn bólusótt eitt og sér hafi bjargað milljónum lífa. Árið 2020 bað CDC þess vegna Kulldorff um að þjóna í tæknihópi um öryggi Covid-19 bóluefnanna. Dvöl hans varði hins vegar ekki lengi—þó ekki af þeirri ástæðu sem þú gætir haldið.

Kulldorff útskýrir að handahófsstýrðu samanburðarrannsóknirnar fyrir Covid bóluefnin hafi verið ranglega hannaðar. Þótt þær hafi sýnt fram á skammtíma árangur bóluefnanna gegn einkennum sýkingar, voru þær ekki hannaðar til að meta sjúkrahúsinnlagnir og dauðsföll, sem er það sem skiptir máli. Í síðari samantektum á RCT rannsóknum eftir tegund bóluefna sýndu sjálfstæðir danskir vísindamenn að mRNA bóluefnin (Pfizer og Moderna) drógu ekki úr líkum á dauðsfalli til skamms tíma litið þegar horft var á dauðsföll af öllum orsökum; adenovirus-bóluefnin (Johnson & Johnson, Astra-Zeneca og Sputnik) minnkuðu hins vegar líkur á dauðsfalli um a.m.k. 30 prósent.

Kulldorff hefur eytt áratugum í að rannsaka aukaverkanir lyfja og bóluefna án þess að taka neitt fé frá lyfjafyrirtækjum. Sérhver heiðarleg manneskja veit að ný lyf og bóluefni koma með mögulegar áhættur sem eru óþekktar við samþykki. Að hans mati var þetta áhætta sem var þess virði að taka fyrir eldra fólk sem stafaði mikil hætta af Covid-sýkingu—en ekki fyrir börn, sem voru í lítilli hættu, né fyrir þá sem þegar höfðu öðlast ónæmi eftir sýkingu. Við spurningu um þetta á Twitter árið 2021, svaraði Kulldorff:

„Að halda að allir verði að vera bólusettir er jafn vísindalega gallað og að halda að enginn ætti að vera það. Covid bóluefni eru mikilvæg fyrir eldra fólk í áhættuhópi og þá sem annast það. Hvorki börn né þeir sem hafa fengið sýkingu áður þarfnast bólusetningar.”

beiðni bandarískra yfirvalda ritskoðaði Twitter tíst Kulldorffs fyrir að ganga gegn stefnu CDC. Eftir að hafa líka verið ritskoðaður af LinkedIn, Facebook og YouTube, gat Kulldorff ekki tjáð sig frjálslega sem vísindamaður. Kulldorff veltir því fyrir sér hver hafi ákveðið að réttindi Bandaríkjamanna til frjálsrar tjáningar ættu ekki við um heiðarleg vísindaleg ummæli sem voru í ósamræmi við þau sem stjórnandi CDC hélt fram?

Kulldorff var farinn að freistast til að þegja bara. En samstarfsmaður frá Harvard sannfærði hann um annað. Fjölskylda hennar hafði verið virk í baráttu gegn kommúnisma í Austur-Evrópu, og hún minnti hann á að við þyrftum að nota hvaða tækifæri sem við gætum fundið—þó þyrftum við stundum að stunda sjálfsritskoðun til að forðast brottrekstur.

En Kulldorff tókst ekki að ritskoða sig nóg til að koma í veg fyrir brottrekstur. Mánuði eftir tístið sitt var hann rekinn úr tæknihópi CDC um öryggi Covid bóluefnanna—ekki vegna þess að hann gagnrýndi bóluefni, heldur vegna þess að hann mótmælti stefnu CDC. Í apríl 2021 hætti CDC að nota Johnson & Johnson bóluefnið eftir skýrslur um blóðtappa hjá nokkrum konum undir fimmtugu. Engin tilvik voru tilkynnt meðal eldra fólks, sem hagnaðist mest á bóluefninu. Vegna þess að almennt var skortur á bóluefnum á þeim tíma, hélt Kulldorff því fram í skoðanagrein að það ætti ekki að setja bóluefnið á bið fyrir eldri Bandaríkjamenn. Þetta var það sem kom honum í vandræði. Hann er líklega eini maðurinn sem hefur verið rekinn frá CDC fyrir að vera of hlynntur einhverju bóluefni. Þótt CDC hafi tekið bóluefnið aftur í notkun fjórum dögum síðar, var tjónið skeð. Kulldorff telur óneitanlegt að einhverjir eldri Bandaríkjamenn hafi látið lífið vegna þessarar óþörfu biðar eftir bóluefninu.

Ýmsar ástæður til að mótmæla skyldubólusetningu

Líkamlegt sjálfræði eru ekki einu rökin gegn skyldubólusetningu við Covid. Hún er líka óvísindaleg og siðlaus.

Kulldorff er með erfðagalla sem kallast alfa-1 antitrypsin skortur, sem þýðir að ónæmiskerfi hans er veiklað. Þar með hafði Kulldorff meiri ástæðu en flestir prófessorar við Harvard til að hafa persónulegar áhyggjur af Covid. Hann bjóst við að Covid myndi fara illa í sig, og það gerðist einmitt í byrjun árs 2021, þegar starfsfólk Manchester-sjúkrahússins í Connecticut bjargaði lífi hans. En hann lét persónulega viðkvæmni sína fyrir sýkingu ekki hafa áhrif á skoðanir hans og tillögur sem lýðheilsufræðingur. Hann telur að það hefði verið rangt, vegna þess að slíkar skoðanir verði að beinast að heilsu allra.

Það fallega við ónæmiskerfis okkar er að þeir sem jafna sig eftir sýkingu eru verndaðir ef og þegar þeir verða fyrir endurtekinni útsetningu. Þetta hefur verið vitað síðan í Aþenu Plágunni árið 430 f.Kr.—en er ekki lengur þekkt við Harvard. Þrír áberandi prófessorar við Harvard tóku þátt í að skrifa alræmt minnisblað í læknisvísindatímaritinu The Lancet, þar sem tilvist ónæmis í kjölfar Covid-sýkingar var dregin í efa. Með því að halda áfram að skylda nemendur, sem hafa þegar sýkst af Covid, til að láta bólusetja sig, er Harvard í raun að afneita vísindalegri þekkingu síðustu 2.500 ára.

Frá því um mitt ár 2021 höfum við vitað, eins og búast mátti við, að það ónæmi sem maður öðlast af Covid sýkingu er æðra því ónæmi sem maður öðlast af bólusetningu við Covid. Á þessum grunni hélt Kulldorff því fram að sjúkrahús ættu að ráða, en ekki reka, hjúkrunarfræðinga og annað starfsfólk sem hafði öðlast náttúrulegt ónæmi í kjölfar Covid-sýkingar.

Kulldorff vill meina að skyldubólusetningar séu ósiðlegar. Rannsóknir sýndu að Covid bóluefni komu í veg fyrir sjúkrahúsinnlagnir og dauðsföll af völdum Covid hjá eldra fólki. Meðan það var skortur á bóluefnum um allan heim var siðlaust að þvinga bóluefni upp á nemendur, sem voru í lítilli hættu, sem og þá sem höfðu þegar öðlast náttúrulegt ónæmi, á meðan eldra fólk um allan heim hafði ekki aðgang að bólusetningu. Af þessari ástæðu hefðu allir þeir sem eru hlynntir bólusetningu átt að vera á móti skyldubólusetningu.

Af vísindalegum, siðferðilegum, lýðheilsu- og læknisfræðilegum ástæðum mótmælti Kulldorff því að láta skylda sig í bólusetningu við Covid. Hann hafði þegar öðlast náttúrulegt ónæmi; og það var áhættusamt að bólusetja hann án viðeigandi rannsókna á sjúklingum með hans tegund af ónæmisgalla. Þessi afstaða olli því að Mass General Brigham rak hann—og í kjölfarið var honum sagt upp störfum sínum við Harvard.

Þótt sjúkrahúsið hafi veitt nokkrar undanþágur frá bólusetningu, var beiðni hans um undanþágu af læknisfræðilegum ástæðum hafnað. Beiðni hans um undanþágu af trúarlegum ástæðum var líka hafnað, en beiðnin var svohljóðandi:

„Eftir að hafa fengið COVID sjúkdóm, hef ég öflugra og varanlegra ónæmi en þeir sem eru bólusettir (Gazit o.fl.). Án vísindalegs rökstuðnings er það trúarlegt dogma að skylda mig í bólusetningu, og þar með bið ég um undanþágu af trúarlegum ástæðum.“

Ef Harvard og sjúkrahús sem tengjast þeim vilja vera trúverðugar vísindastofnanir, ættu þau að ráða aftur þá sem þau ráku. Og það væri skynsamlegt af Harvard að aflétta Covid skyldubólusetningu fyrir nemendur, eins og flestar aðrar háskólar hafa þegar gert.

Enn er von fyrir vísindasamfélagið

Kulldorff segir að flestir kennarar við Harvard leggi sig fram við að leita sannleikans á fjölbreyttum sviðum, en Veritas hafi ekki verið leiðarljós stjórnenda Harvard. Akademískt frelsi, vitsmunaleg forvitni, sjálfstæði frá ytri öflum og áhyggjur af velferð almennra borgara hafa ekki haft áhrif á ákvarðanatöku þeirra.

Kulldorff vill meina að Harvard og vísindasamfélagið í víðara samhengi eigi mikið verk fyrir höndum til að verðskulda og endurheimta traust almennings. Fyrstu skrefin eru endurheimt akademísks frelsis og afnám útilokunarmenningar. Þegar vísindamenn hafa mismunandi sjónarmið á málefnum sem varða almenning, ættu háskólar að skipuleggja opnar og siðmenntaðar umræður til að leita sannleikans. Harvard hefði getað gert það—og getur enn, ef það svo kýs.

Nánast allir gera sér nú grein fyrir því að lokun skóla og margar aðrar íþyngjandi sóttvarnaraðgerðir voru mikil mistök. Francis Collins hefur viðurkennt mistök sín við að einblína eingöngu á Covid án þess að huga að neikvæðum afleiðingum á menntun og heilsufara utan Covid. Það er heiðarlegt og Kulldorff vonar að þessi heiðarleiki nái til Harvard. Almenningur á það skilið og akademían þarf það til að endurheimta trúverðugleika sinn.

Vísindi geta ekki lifað í samfélagi sem metur ekki sannleikann og leitast ekki við að uppgötva hann. Vísindasamfélagið mun smám saman missa stuðning almennings og sundrast í slíkri menningu. Leitin að sannleikanum krefst akademísks frelsis með opinni, ástríðufullri og siðmenntaðri vísindalegri umræðu. Hún þolir ekki fyrir rógburð, einelti og útilokun. Von Kulldorffs er sú að einn daginn muni Harvard finna leið sína aftur til akademísks frelsis og sjálfstæðis.


Þessi grein er endursögn af grein Dr. Martin Kulldorffs, Harvard Tramples the Truth, sem birtist fyrst í City Journal.

Greinin birtist fyrst á Krossgötur 10.4.2024

One Comment on “Harvard traðkar á sannleikanum”

  1. Sannleikurinn leggst oft illa í þá sem stjórnast af stjórnmálaskoðunum og hugmyndafræði.

Skildu eftir skilaboð