Mikael, 39 ára gamall var ásamt 12 ára syni sínum á leiðinni í sundlaugina i Skärholmen að sögn Expressen. Þegar þeir hjóluðu gegnum undirgöng mættu þeir unglingum sem hótuðu þeim. Mikael stoppaði, sem varð til þess að einn úr hópnum dró upp byssu og skaut hann í höfuðið. Mikael dó fyrir framan augu sonarins.
Glæpurinn var framinn klukkan 18:15 á miðvikudagskvöld í innflytjendaþéttu úthverfi Suður-Stokkhólms, Skärholmen. Skelkaður sonurinn hringdi í 112 en þegar eftirlitsmenn komu á staðinn voru glæpamennirnir farnir. Enginn hefur enn verið handtekinn fyrir morðið.
Upphaflega hélt lögreglan að um væri að ræða enn eitt uppgjör glæpahópa og morðingjar farið mannavillt og tekið hinn 39 ára gamla föður fyrir einhvern annan. Mikael hefur engan sakaferil að baki. Lögreglunni skildist að lokum að glæpamaðurinn móðgaðist við að vera ávarpaður og taldi einfaldlega best að skjóta manninn á staðnum svo hann þegði.
Reyndi að afvopna skotmanninn
Ekki er ljóst hvor Mikael hafi bara stoppað og svarað til baka eða hvort hann fór af hjólinu og reyndi að taka byssuna af unglingnum sem miðaði á hann. Glæpahópurinn er sagður hafa flúið af vettvangi á rafmagnsvespum, svokölluðum fat bikes, eftir morðið. Lögreglan segir að svo komnu máli ekkert um hvernig gengur að elta glæpamennina.
Í uppnámi vegna glæpahóps
Fregnir herma að Mikael hafi um nokkurt skeið verið í uppnámi vegna umrædds hóps og aukinna glæpa á svæðinu, þar á meðal opinnar fíkniefnasölu. Hann er einnig sagður hafa haft samband við lögreglu fyrr um starfsemi glæpahópsins án þess að nokkuð hafi verið aðhafst. Það eina sem hann vildi var að sonur hans gæti alist upp í tryggu hverfi. Carina Skagerlind, talsmaður lögreglunnar í Stokkhólmshéraði, segir í yfirlýsingu til fjölmiðla:
„Við vinnum hörðum höndum að þessari morðrannsókn og getum ekki gefið miklar upplýsingar á þessu stigi vegna rannsóknarinnar.“
Tæknilegri vettvangsrannsókn er lokið en lögreglan verður með áframhaldandi viðveru á svæðinu á fimmtudaginn til að safna frekari upplýsingum um vitni og framkvæma „öryggisskapandi ráðstafanir.“ Þetta er þriðja skotárásin í hverfinu á einum mánuði og annað morðið á sama tíma.
Svíþjóðardemókratar segja tíma til kominn að segja klíkunum stríð á hendur
Leiðtogi Svíþjóðardemókrata, Jimmie Åkesson, skrifar meðal annars á X:
„Alþjóðasamþykktir, gömul rök um félags- og efnahagslega þætti eða heimskulegt tal um glæpaforvarnir frístundagarða finnst mér að ætti að fleygja beint í ruslið. Það er ekki nóg að segja háfleyg orð, það er kominn tími til að Svíþjóð lýsi yfir algeru stríði gegn hverjum einasta einstaklingi í þessum glæpahópum“