Eru það ekki orðin mannréttindi að öllum skuli líða vel?

Gústaf SkúlasonGústaf Skúlason, Innlent, ViðtalLeave a Comment

Það voru kærir endurfundir með Gústafi Níelssyni sem er á Spáni og nýtt viðtal tekið með þeim góða manni 12. apríl. Sumarið komið suður á Spáni en vorið að strögglast inn á norðurhveli jarðar. Hann tók að venju vel í það að koma í viðtal og ræða málefni líðandi stundar. Um stjórnmálin og hvernig þau hafa breyst frá því að vera fyrir þjóðina yfir í hlaupafólk sem vinnur mjög fyrir alþjóðastofnanir sem girðir af persónufrelsi landsmanna. Gústaf sagði:

„Stjórnmálamennirnir eru bara að hugsa um heiminn en ekki sína eigin landsmenn. Skyldur stjórnmálamanna er fyrst og fremst gagnvart eigin mönnum, áður en þeir fara að bjarga heiminum.“

Óhætt er að taka undir þessi orð Gústafs Níelssonar og virðist sams konar fár herja á stjórnmálamönnum Vesturlanda sem nokkurs konar sérkóf fyrir pólitíkusa.

Alþjóðavæðingin setur sín spor hjá okkur öllum eins og Gústaf segir:

Við erum orðin svo alþjóðleg og nútímaleg, að við erum hætt að kunna að vera Íslendingar

Hér er Gústaf að ræða um þá útþynningu á einkennum landans að ákveða sjálfir sín eigin örlög og þora að standa fyrir sínu. Hann bendir á þau sígildu sannindi, að við Íslendingar erum lítil þjóð, burðarlaus með öllu til að geta „bjargað öllum heiminum.“ Gústaf segir:

„Það þarf enga sérfræðinga til að sjá, að ef við gleymum að gæta að tilveru okkar og grundvelli, þá missum við landið undan okkur.“

Íslendingar ættu frekar að nota fé sitt til að veita særðum hermönnum lækningu

Þess vegna passar það engan veginn að vera að taka þátt í stríðsleik voldugra þjóða á heimsmælikvarða eins og til dæmis að kaupa tékkneskar sprengjur fyrir Úkraínustríðið. Nær væri fyrir Ísland að nota þá peninga í mannúðaraðstoð til særðra hermanna stríðsins með útlimum frá Össuri. Þar væru tvær flugur slegnar í einu höggi, peningarnir færu til íslensks fyrirtækis og mannúðar í stað manndráps. En yfirvöld virðast hafa týnt fótunum og ráðgast varla lengur við skjólstæðinga sína.

Stjórnmálaástandið með brotthlaupi Katrínar Jakobsdóttur úr forsætisráðherrastóli var til umræðu og telur Gústaf það benda til þess, að Katrín skilji að hún hafi misst stuðning baklandsins í Vinstri Grænum og flýr því af hólmi áður en aðrir taka í taumana. „Vinstri grænir standa við dauðans dyr“ segir Gústaf.

Gústaf nefndi að lítið gerðist í málefnum Grindvíkinga, hann hafði nýverið heyrt í bæjarfulltrúa af Suðurnesjum í þeim málum. Vandamálin hrannast upp og ekki bætir hinn hömlulausi flutningur útlendinga inn til landsins úr neinu heldur eykur á allan vandann. Var samanburður gerður við hið hrikalega ástand í Svíþjóð, en þar verða vopnaðir glæpamenn sífellt aðgangsharðari gagnvart venjulegum íbúum svo fólk er farið að óttast um lífið. Er hörmulegt til þess að vita, að íslenskir stjórnmálamenn hvorki loka landamærunum og stöðva þessa ferð að feigðarósi né komi þeim skipulega úr landi sem fremja afbrot. Nefndi hann sem tæmi að hann vissi um verkfæri frá Ístak sem voru til sölu á flóamarkaði í Tallin í Eistlandi. Lögreglan hefur varað yfirvöld við skipulögðum glæpahópum sem eru búnir að ná fótfestu í landinu en viðbrögðin líkust ungviði sem skilur ekkert hvað er að gerast í kringum sig.

Nýlegur loftslagsdómur Mannréttindadómsstólsins er pólitískur

Nýlegur dómur Mannréttindadómsstólsins sem gerir ríkisstjórnir „ábyrga fyrir loftslagi jarðar“ er laus við raunveruleikann og byggir á þeirri stjórnmálaskoðun, sem sumir líkja við guðatrú fornaldar, að yfirvöld geti stjórnað hitastigi lofthjúpsins. Það er öllu kippt úr samhengi, við erum sama efni og stjörnurnar og æðri kraftur orsök lífs mannkyns á plánetu jörð. Gústaf segir í þessu sambandi:

„Mannréttindadómstóllinn er hlaupandi á eftir viðhorfum gamalla Alþýðubandalagskerlinga, sem halda það, að aðgerðaleysi stjórnvalda í loftslagsmálum séu að drepa þær. Eru það bara ekki orðin mannréttindi að öllum skuli líða vel?“

Smelltu á spilarann hér að neðan til að hlusta á viðtalið:

author avatar
Gústaf Skúlason

Skildu eftir skilaboð