Stríðið í Úkraínu „gefur mikið fyrir peninginn“

Gústaf SkúlasonErlent, Gústaf Skúlason, Stríð1 Comment

Yfirlýsing David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands um að „Úkraínustríðið gefi ótrúlega mikið fyrir peninginn“ hefur vakið athygli.

Cameron og Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, héldu nýlega sameiginlegan blaðamannafund í Washington. Stríðið í Úkraínu var aðal umræðuefnið. Bæði Cameron og Blinken töluðu um mikilvægi þess að endurvopna heri sína:

„Til að efla og sýna fram á lýðræðisleg gildi og frjálsari, friðsamlegri og farsælli heim.“

„Gríðarlega mikið“ fæst fyrir peninginn

Í Bandaríkjunum vex andstaðan við að halda áfram að senda vopn fyrir hundruð milljarða til hins stríðshrjáða lands í Evrópu. Breski utanríkisráðherrann reyndi að draga úr andstöðunni með því að fullyrða, hversu hagkvæmt stríðið er fyrir Bandaríkin. Cameron sagði:

„Það besta sem við getum gert á þessu ári er að halda Úkraínu í gangi í þessu stríði. Þeir berjast svo hraustlega. Þeir munu ekki tapa vegna skorts á móral.“

„Bandaríkin og aðrir fá gríðarlega mikið fyrir peninginn. Fyrir kannski um 5 – 10% af varnarkostnaðinum hefur næstum helmingur herbúnaðar sem Rússland átti fyrir stríð verið eyðilagður. Ekki einn einasti bandarískur hermaður hefur verið drepinn. Þetta er fjárfesting í bandarísku öryggi!“

Sjónarspilið vekur viðbrögð á samfélagsmiðlum og margir velta því fyrir sér, hvort leiðtogum hins vestræna heims láti sig úkraínsku þjóðina nokkru máli skipta.

Varar við „sterkara bandalagi“

Yfirlýsing Camerons kemur á sama tíma og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, reynir að skrapa saman 100 milljörðum evra sem á að duga til að halda stríðinu gangandi næstu fimm árin. Hann segir í viðtali við BBC að hann sé sannfærður um, að Nató nái samkomulagi um peningapakkann fyrir júlí í ár.

Peningapakkinn til að tryggja áframhald stríðsins á að vera trygging sem neyðaráætlun ef Donald Trump verður kjörinn forseti Bandaríkjanna í haust. Öllum er ljóst að leiðtogi repúblikana vill binda enda á stríðið. Með því að tryggja langtímafjármögnun vill Nató vinna gegn niðurstöðum frjálsra kosninga og vilja kjósenda í þýðingarmesta ríki bandalagsins. Nató vill halda Úkraínustríðinu í gangi til fjölda ára burtséð frá vilja lýðræðislegra kjörinna valdhafa.

Stoltenberg varar einnig við bandalagi Rússlands, Kína, Írans og Norður-Kóreu. Hann telur að það sé mikilvægt, að Nató „standi sig gegn sterkari bandalagi einræðisafla.“

One Comment on “Stríðið í Úkraínu „gefur mikið fyrir peninginn“”

  1. Vald er viðurstyggð, sama hvaða nafni það vill kallast.

Skildu eftir skilaboð