Ný könnun sýnir að fleiri en átta af hverjum tíu Svíum, 83%, vilja að reiðufé verði áfram til staðar í framtíðinni. Hefur hlutfall þeirra sem hafna einokun rafrænnar myntar aldrei verið hærra.
Verian (áður Sifo) hefur spurt Svía á hverju ári síðan 2018, hvort þeir vilji að reiðufé verði áfram möguleg leið til greiðslu í framtíðinni eða hvort þeir vilji hafa algjörlega peningalaust samfélag.
Í könnuninni í ár svöruðu 83% Svía, að þeir vildu hafa reiðufé áfrm sem er algjört met. Hlutfall Svía sem vilja halda reiðufé hefur aukist nokkuð jafnt og þétt frá fyrstu könnuninni árið 2018 en þá var hlutfallið 68%. Einungis 11% vildu hafa algjörlega peningalaust samfélag með stafrænan gjaldmiðil eingöngu.
Þátttakendur í könnuninni voru einnig beðnir um að tilgreina mikilvægustu ástæðuna fyrir afstöðu sinni. 51% sögðu „viðbúnað við kreppu“ vera mikilvægustu rökin fyrir því að reiðufé yrði áfram – til dæmis ef stafræn greiðslukerfi yrðu óvirk, 29% svöruðu „valfrelsi“ og 19% sögðu að ekki mætti „mismuna“ reiðufé miðað við önnur greiðsluform og að reiðufé yrði að vera aðgengilegt þegar „stafrænt útsettir einstaklingar“ þyrftu á því að halda.