Páll Vilhjálmsson skrifar:
Heimildin, af öllum miðlum, birti frétt um að þöggunarmálssóknir séu tilræði gegn lýðræði og tjáningarfrelsi. Á útlensku heita slíkar málssóknir SLAPP, segir Heimildin, og útskýrir nánar:
til að mynda málsóknir sem notaðar eru gegn fjölmiðlum og öðrum „varðhundum almennings“ með þeim ásetningi að koma í veg fyrir eða hamla frjálsri umfjöllun um mál sem varða almannahag.
Heimildin ætti að líta sér nær. Ritstjórinn, Þórður Snær, og tveir blaðamenn stefndu tilfallandi bloggara fyrir dóm, ekki einu sinni heldur tvisvar, fyrir það eitt að fjalla um aðkomu blaðamanna að byrlunar- og símastuldsmálinu.
Það er vitanlega í þágu almannahagsmuna að upplýst sé hver tengsl fimm blaðamanna, sem eru sakborningar í lögreglurannsókn, eru við konu sem játað hefur að byrla Páli skipstjóra Steingrímssyni, stolið síma hans og afhent fréttamanni RÚV til afritunar. Frá ríkisfjölmiðlinum fóru gögnin til Þórðar Snæs á Kjarnanum og Aðalsteins á Stundinni, sem birtu fréttir með vísun i gögnin.
Brýnt er að upplýsa allar hliðar málsins, ekki síst vegna trúverðugleika blaðamanna og fjölmiðla. Það tekur engu tali að fjölmiðlar eigi aðkomu að alvarlegum árásum á líf og heilsu fólks og brjóti á einkalífi þess.
Fjölmiðlar þegja í stéttvísri meðvirkni með blaðamönnum. Bloggari tekur málið upp og fjallar um það. Hvað gerist? Jú, hann fær þöggunarmálssókn frá sakborningum. Ekki eina heldur tvær. Markmiðið er að gera bloggara dýrkeypt að fjalla um mál sem blaðamenn og fjölmiðlar vilja sópa undir teppið. Heimildin segir SLAPP-málssókn hafa
kælingaráhrif á tjáningarfrelsið og samfélagslega þátttöku almennings.
Vitnað er í Þorhildi Sunnu Pírataþingmann sem telur ótækt að fjársterkir aðilar beiti þöggunarmálssóknum til að kveða í kútinn raddir almennings. Í byrlunar- og símastuldsmálinu er tilfallandi eina rödd almennings. Blaðamenn og fjölmiðlar segja ýmist fátt eða fara með ósannindi; neita byrlun og þjófnaði. Blaðamannafélag Íslands verðlaunar fréttamenn sem eru þjófsnautar.
Mun Þórhildur Sunna ræða á alþingi það hættulega fordæmi sem ritstjórn og eigendur Heimildarinnar sýna með því að stefna bloggara fyrir dóm og krefja hann um milljónir króna í miskabætur og lögfræðikostnað? Fyrir það eitt að fjalla um refsimál þar sem blaðamenn eru sakborningar.