Úkraínska ríkið neitar núna úkraínskum karlmönnum sem búa erlendis um venjulega þjónustu eins og endurnýjun vegabréfa. Ástæðan er sú að þeir vilja neyða þá til að snúa aftur til heimalands síns – til að berjast gegn Rússlandi.
Á miðvikudaginn varð uppþot á bráðabirgðaræðismannsskrifstofu Úkraínu í Krakow í Póllandi. Úkraínumönnum sem sóttu um var neitað að endurnýja vegabréf sín. Hrópuðu reiðir Úkraínumenn á starfsfólkið án árangurs.
Nýjar tilskipanir – vantar fleiri í „kjötkvörnina“
Ástæðan fyrir því að Úkraínumönnum er allt í einu synjað um vegabréf eru nýjar tilskipanir frá utanríkisráðuneytinu í Kænugarði. CNN greindi m.a. frá þessu. Utanríkisráðherra Úkraínu, Dmitro Kuleba, útskýrði málið á X:
„Dvöl erlendis leysir ríkisborgara ekki undan skyldum sínum gagnvart heimalandi sínu. Það er ástæðan fyrir því, að ég fyrirskipaði aðgerðir í gær til að endurreisa réttlæti fyrir karla á herskyldualdri í Úkraínu og erlendis.“
Úkraínski herinn er í bráðri þörf á að fá fleiri hermenn í stríðið gegn Rússlandi. Í leit að nýju efni í „kjötkvörnina“ eins og vígstöðvarnar eru kallaðar, þá horfa úkraínsk stjórnvöld sífellt meira til vesturs í átt að ESB-löndunum.
Meira en tíu milljónir Úkraínumanna hafa flúið landið frá innrásinni í febrúar 2022. Um helmingur þeirra hefur leitað skjóls í nágrannaríkinu Póllandi. Þótt flestir flóttamenn séu sagðir vera konur og börn, þá hafa einnig margir karlmenn flúið landið. Þess vegna er það orðið sér í lagi mikilvægt fyrir stjórnvöld í Úkraínu að auka þrýsting á á þá Úkraínumenn sem búa í Póllandi.
Bregðast reiðir við
Nýju tilskipanirnar snerta ekki aðeins þá sem flúðu Úkraínu, heldur einnig þá úkraínsku ríkisborgara sem hafa búið og starfað í Póllandi löngu áður en stríðið braust út. Þeir Úkraínumenn eru reiðir yfirvöldum fyrir nýju skipanirnar. Einn skrifar á Tiktok:
„Þegar ég bað embættismann um opinber gögn til staðfestingar á því, hvers vegna hætt er að endurnýja vegabréf, þá var mér bent á Facebookfærslu Kuleba. Þegar fólk bað um að fá skriflega neitun á útgáfu vegabréfs, þá sögðu starfsmenn að þeir myndu ekki neita að gefa út vegabréf. En þegar þeir voru spurðir aftur um að fá vegabréf, þá sögðust þeir ekki gefa þau út lengur.“
Engin lagastoð fyrir að neita eigin borgurum um ræðisþjónustu
Annar skrifaði við færslu Kuleba:
„Það er engin lagastoð fyrir því að neita eigin borgurum um ræðisþjónustu. Aðgerðir ykkar brjóta ekki aðeins í bága við núverandi löggjöf Úkraínu, sem þið teygið til að þjóna ykkar eigin hagsmunum, heldur eru þær einnig í bága við alþjóðleg lög og reglur.“
Ýmsir telja það gott mál, að stjórnvöld geri sitt besta til að þvinga úkraínska karlmenn til að snúa aftur til Úkraínu. Þannig skrifar einn á X:
„Þakka ykkur fyrir hugrekkið til að taka óvinsælar en afar nauðsynlegar ákvarðanir.“