Daily Mail birti nýlega frétt um konu sem barðist fyrir lífu sínu eftir að hafa drukkið kaffi úr sjálfsala á flugvellinum á Majorka. Kaffið var fullt af pöddum.
Konan sem er 21 árs og vinnur hjá flugfélagi, fékk sér kaffi í sjálfsala á Son Sant Joan flugvellinum, nálægt höfuðborginni Palma á Majorka. Þegar hún byrjaði að drekka kaffið tók hún eftir því að bragðið var eitthvað öðru vísi og þegar hún skoðaði bollann nánar sá hún fjölda skordýra skríða um í bollanum að sögn spænska fréttamiðilsins Ultima Hora.
Síðan fékk hún bráða ofnæmislost, andlitið bólgnaði upp, hálsinn var að lokast og hún átti erfitt með andardrátt. Konan bólgnaði öll og heilbrigðisþjónusta flugvallarins gaf henni adrenalín ásamt öðrum lyfjum. Konan var flutt í skyndi á sjúkrahús þar sem henni var haldið í 36 klukkustundir á gjörgæsludeild áður en hún fékk að fara þaðan.
Núna hefur fjölskylda konunnar kært flugvöllinn til ríkislögreglunnar. Segir fjölskyldan að það að vera með pöddur í kaffibollanum sé hugsanlegur glæpur gegn lýðheilsu og kæruleysi gagnvart skaðlegum áhrifum.
Fjölskyldan telur, að kaffivélinni sem núna hefur verið tekin burtu, hafi greinilega verið illa við haldið af flugvallarstarfsmönnum.