Verður Hamasliðum úthýst frá Katar?

frettinErlent, Ingibjörg GísladóttirLeave a Comment

Ingibjörg Gísladóttir skrifar:

Það hefur verið eftirtektarvert hver lítil viðbrögð Arabaríkin hafa sýnt við stríði Ísraelsmanna gegn Hamas. Sum þeirra hafa ekki einu sinni kallað heim sendiherra sína og Sádar hafa ekki afskrifað að taka upp fullt stjórnmálasamband við Ísrael, þó að þær viðræður hafi verið settar á frost eftir 7. október. Þeir krefjast ekki lengur að ríki Palestínumanna sé komið á, aðeins að áætlun þess efnis liggi fyrir. Hinn 1. maí birtist athyglisverð grein á alarabya.net (Sádar) þar sem látið er að því liggja að Hamas þurfi að flytja höfuðstöðvar sínar frá Katar. Haft er eftir Mousa Abu Marzouk, einum leiðtoga Hamas að slíkt standi ekki til, en ef að til slíks kæmi þá myndu þeir flytja sig um set til Jórdaníu, þar sem þeir ættu að vera með réttu (þar eru Palestínumenn í meirihluta). Það sé aðeins vegna áhrifa Bandaríkjamanna sem þeir séu í Katar, segir Marzouk. Það er vel mögulegt að bæði BNA og Sádar pressi nú á Katara að úthýsa Hamasleiðtogunum, BNA vegna tregðu þeirra til vopnahléssamninga og Sádar vegna þess að Íran heldur Hamas uppi en Íran vinnur gegn áhrifum Sáda bæði í Líbanon og Jemen.

Hvert gætu leiðtogar Hamas farið?

Jórdanir munu þó engan veginn spenntir fyrir því að taka Hamasleiðtoga undir sinn verndarvæng. Þeir ráku jú Khaled Meshaal úr landi 1999 og sagan af Svarta September og öðrum vandræðum sem fylkingar Palestínumanna hafa valdið þar mun ekki gleymd. Minnast má á morðið á Wasfi Tell, forsætisráðherra Jórdaníu, en fjórir öfgasinnaðir Palestínumenn gerðu úr honum gatasigti á Sheraton hótelinu í Kaíró 1971 og einn þeirra sleikti upp blóð hans.

Það var í september 1970 sem PLO undir forustu Arafat hafði gert sig líklegt til að ræna völdum í Jórdaníu en her Jórdaníu, með aðstoð frá Pakistan (m.a. Zia-ul Haq, sem síðar náði völdum í Pakistan), drap þúsundir þeirra og rak uppreisnarsveitirnar af höndum sér til Líbanon þar sem þessir bardagaglöðu menn komu af stað borgarastríði, sem landið hefur ekki enn jafnað sig af.

Frá vinstri: Ismail Haniyeh, Moussa Abu Marzuk og Khaled Mashal.

Líbanon kemur sem sagt ekki til greina fyrir Hamas og ekki Sýrland, því Palestínumenn studdu margir ISIS gegn stjórn Assad. Tyrkir hafa lengi verið vinveittir Hamas en samkvæmt greininni í alarabiya.net hafnaði tyrkneski utanríkisráðherrann, Hakan Fidan, því nýlega að taka við þeim og til að bæta gráu ofan á svart þá lýsti borgarstjóri Istanbul, Ekrem Imamoglu, því yfir nýlega að Hamas væru hryðjuverkasamtök. Löndin sem tóku við PLO vandræðaseggjunum á árum áður, Líbía, Súdan og Túnis, hafa nóg með sín vandamál, Oman er sagt hafa afþakkað og Egyptar, sem hafa aldrei viljað taka við palestínskum flóttamönnum, muna allt of vel þann tíma er Bræðralag múslima (Hamas er hluti af því) stjórnaði landinu í stuttan tíma fyrir rúmum tíu árum.

Það er varla von til að neitt land vilji veita leiðtogum Hamas skjól, mönnum sem nota fólk sitt sem mannlega skildi. Hver vill til lengdar hýsa Ghazi Hamad sem fagnaði innrásinni 7. október og lofaði fleirum slíkum; sem ásamt Khaled Mashaal telur dauða almennra palestínskra borgara nauðsynlega fórn eða þá Ismail Haniyeh sem sagði á Al-Jazeera í október á síðasta ári að þeir þyrftu á því að halda að börn, konur og aldraðir féllu á Gaza til að halda uppreisnarandanum á lífi og til að viðhalda bardagaviljanum? Aldrei skyldi þó vanmeta afl fjármagnsins, en helstu toppar Hamas munu eiga milljarða USD í eignum hver um sig.

Skildu eftir skilaboð