Staða Maríu Sigrúnar – spjótin standa á Stefáni

frettinFjölmiðlar, InnlentLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Hálfsmánaðar gömul frétt Maríu Sigrúnar um milljarðagjöf Reykjavíkurborgar til olíufélaganna verður sýnd á RÚV í kvöld. Vegna fréttarinnar var Maríu Sigrúnu vikið úr fréttateymi Kveiks með svívirðingum. Hún var sögð skjáfríð en ekki kunna ,,rannsóknafréttamennsku." Í reynd var frétt sem átti erindi við almenning tekin af dagskrá vegna pólitískra sjónarmiðla.

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri var áður borgarritari og staðgengill borgarstjóra. Hann lét sér vel líka að frétt Maríu Sigrúnar var tekin af dagskrá og ekki greip hann til varnar þegar fréttakonan var lítilsvirt af karlkyns yfirmönnum. Samtök erlendra blaðamanna hafa gagnrýnt RÚV fyrir meðferðina á fréttakonunni.

Einhverjar fréttir hljóta að berast úr Efstaleiti í dag um stöðu Maríu Sigrúnar. Er hún í fréttateymi Kveiks eða ekki? Biðst RÚV afsökunar að hafa afturkallað frétt af pólitískum ástæðum? Verður María Sigrún beðin afsökunar?

Það stendur upp á Stefán útvarpsstjóra að útskýra afturköllun fréttarinnar um spillingu í Reykjavíkurborg. Uppgefin ástæða var að frétt Maríu Sigrúnar héldi ekki máli faglega. Nú þegar fréttin er komin á dagskrá er ljóst að þar var um að ræða tylliástæðu. Stefán, vegna fyrri starfa sinna hjá borginni, liggur undir grun um að vera meðsekur um að fréttin var tekin af dagskrá. Þá þarf Stefán að útskýra hvaða ráðstafanir verða gerðar vegna lítilsvirðandi ummæla sem karlkyns yfirmaður lét falla um Maríu Sigrúnu.

Stefán getur ekki látið eins og ekkert hafi í skorist. Hann er yfirmaður ríkisfjölmiðils og þarf að gera almenningi grein fyrir stórundarlegum atburðum síðustu daga á Efstaleiti.

Ef Stefán reynir að þegja málið af sér hlýtur ráðuneytið að krefja Efstaleiti svara. Stjórn RÚV, sem á að hafa eftirlit með útvarpsstjóra, hlýtur einnig að taka málið á dagskrá.

Skildu eftir skilaboð