Páll Vilhjálmsson skrifar:
Bannfærð frétt Maríu Sigrúnar um gjafagjörning Reykjavíkurborgar, sem færði olíufélögum lóðir undir íbúðarbyggð fyrir tugi milljarða, var vonum seinna á dagskrá RÚV í gærkveldi.
Hápunktur fréttarinnar var þegar Dagur fyrrum borgarstjóri sagði það ,,loftslagstefnu borgarinnar" að gefa olíufélögum lóðirnar. Um er að ræða lóðir 12 bensínstöðva sem fara undir íbúðabyggð. Olíufélögin hafa stofnað fasteignafélög til að halda utan um gjafirnar frá Degi og valdavinstrinu í Reykjavík.
Frétt Maríu Sigrúnar afhjúpaði leyndarhyggjuna að baki samningum við olíufélögin, sem staðfestir að vinstriflokkarnir voru í vondri trú, eins og það heitir á lagamáli, þegar olíufélögin fengu lóðirnar gefins. Vinstrimeirihlutinn vissi að gjörningurinn var siðlaus ef ekki einnig löglaus.
Frétt Maríu Sigrúnar var tekin af dagskrá RÚV fyrir hálfum mánuði, að kröfu yfirmanna hennar sem viku henni úr fréttateymi Kveiks. Stefán Eiríksson útvarpsstjóri var borgarritari, staðgengill borgarstjóra, þegar drögin að gjafagjörningnum tóku á sig mynd, árið 2019. Stefán var innsti koppur í spillingarbúrinu við Tjörnina og tók með sér andrúmsloftið þar upp á Glæpaleiti. Spillt stjórnsýsla þarf sinn varðhund.
Eftir þrýsting og háværa umræðu ákvað RÚV að sýna frétt Maríu Sigrúnar. Siðlaust samspil vinstrimeirihlutans í Reykjavík og vinstrimanna á Efstaleiti að halda upplýsingum frá almenningi var brotið á bak aftur í þetta sinn.
Má búast við framhaldsfrétt á RÚV um hvað meirihlutaflokkarnir í ráðhúsinu fengu fyrir sinn snúð? Spillingin er alltaf með tvær hliðar, einn veitir og annar þiggur. Sá sem hagnast á siðlausum og ólögmætum gjörningi stjórnmálamanna skilar tilbaka umbun í einu eða öðru formi.
Spillingin sem tröllríður húsum í ráðhúsinu við Tjörnina og á Glæpaleiti heldur áfram að vinda upp á sig. Almenningur er féflettur, afbrot eru framin en gerendur allir stikkfrí. Enginn er ábyrgur. Jú, reyndar, þetta er allt loftslaginu að kenna.