Rússar hóta árásum á breskar bækistöðvar í Úkraínu „sem og annars staðar“

Gústaf SkúlasonErlent, Innlendar, ÚkraínustríðiðLeave a Comment

Rússar setja Bretlandi úrslitavalkost: Hóta hefndum fyrir árásir á Rússland með breskum vopnum.

Rússneska utanríkisráðuneytið kallaði til sín sendiherra Bretlands í dag og tilkynnti, að Rússland muni bregðast við breskum skotmörkum í Úkraínu eða annars staðar ef ríkisstjórn Úkraínu notar flugskeyti frá Bretlandi til að ráðast á rússneskt landsvæði. Margar helstu fréttaveitur segja frá málinu t.d. Reuters, The Telegraph,  Newsweek The Independent m.fl.

Nigel Casey sendiherra Breta var kallaður inn á teppið í kjölfar ummæla Davids Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, um að Úkraína hafi rétt til að nota langdrægar eldflaugar sem Bretar hafa sent til að gera árás djúpt inni í Rússlandi. Í yfirlýsingu rússneska utanríkisráðuneytisins í kjölfar fundarins segir:

„Casey var varaður við því,  að viðbrögð við árásum Úkraínumanna með breskum vopnum á rússneskt landsvæði gætu verið hvaða breskar herbúðir og búnaður sem er á yfirráðasvæði Úkraínu og víðar.“

Breytt stefna Nató-ríkja

Bandaríkin og bandamenn þeirra höfðu áður skilgreint sendingar sínar á langdrægum vopnum til Kænugarðs með því að segja að einungis mætti nota þau á svæðum sem Úkraína gera tilkall til – Krímskaga, Donetsk, Lugansk ásamt Kherson og Zaporozhye héraða.

Rússneska utanríkisráðuneytið túlkar yfirlýsingar Camerons sem hið gagnstæða, sem viðurkenningu á því, að Bretland séu þáttakendur í átökunum. Líta Rússar á ummæli Camerons sem

„sönnun um alvarlega stigmögnun stríðsátaka og staðfestingu á aukinni þátttöku Bretlands í hernaðaraðgerðum við hlið Úkraínu.“ 

Skoruðu Rússar á Casey að:

„Hugsa um óumflýjanlegar, hörmulegar, afleiðingar slíkrar fjandsamlegrar vegferðar Bretlands og afturkalla tafarlaust á afgerandi og afdráttarlausan hátt hinar herskáu ögrandi yfirlýsingar utanríkisráðherrans.“

Rússar æfa ræsingu langdreginna kjarnorkuvopna

Fyrr um daginn tilkynnti rússneska varnarmálaráðuneytið um æfingu fyrir ræsingu taktískra kjarnorkuvopna. Vladimír Pútín forseti fyrirskipaði æfinguna eftir „ögrandi yfirlýsingar og hótanir“ vestrænna embættismanna, að sögn hersins.

Rússneska utanríkisráðuneytið segir að vonast sé til að æfingin:

„Kæli niður „heitu hausana“ í vestrænum höfuðborgum og hjálpi þeim að skilja hvílíkar hugsanlegar, skelfilegar afleiðingar breytt stefna þeirra geti haft. Einnig að „komið verði í veg fyrir aðstoð þeirra í hryðjuverkum Úkraínu sem geti dregið viðkomandi inn í bein vopnuð átök við Rússland.“ 

Sendiherra Frakklands, Pierre Levy, var einnig kallaður í utanríkisráðuneytið en engar fregnir hafa borist af þeim fundi enn.

Skildu eftir skilaboð