Hin 18 mánaða Opal Sandy fékk heyrnina aftur eftir einstaka svokallaða genameðferðaraðgerð. Stúlkan er sú fyrsta í heiminum til að gangast undir aðgerðina.
Fæddist heyrnarlaus
Opal Sandy fæddist heyrnarlaus vegna heyrnartaugakvilla. Trufluðust taugaboð frá innra eyra til heilans sem getur stafað af gölluðu geni. Fimm ára systir Opals, Nora, er með sömu tegund heyrnarleysis en hún nýtur hjálp frá kuðungsígræðslu sem sendir rafboð til heyrnartaugarinnar og fer þannig fram hjá gölluðum hlutum eyrans.
Það var stór ákvörðun fyrir foreldrana Jo og James, sem eru frá Owfordshire, að láta gera aðgerð á kornungri dóttur sinni. Móðirin segir í viðtali við BBC:
„Þetta var virkilega skelfilegt en ég held að okkur hafi verið gefið einstakt tækifæri.“
Í aðgerðinni fékk stúlkan innrennsli með afrit af af því geni sem hana vantaði. Eftir aðgerðina sem tók 16 mínútur, þá heyrði stúlkan. Jo Sandy, móðir Opal, segir við The Guardian:
„Ég trúði þessu varla. Þetta var… svo einstaklega sérstakt.“
Fyrsta aðgerð sinnar tegundar
Aðgerðin er sú fyrsta sinnar tegundar og var framkvæmd á Addenbrooke’s sjúkrahúsinu sem er hluti af Cambridge háskólasjúkrahúsunum. Fleiri heyrnarlaus börn bíða eftir að komast í aðgerð og verður meðferðinni fylgt eftir í fimm ár.
Eyrnaskurðlæknirinn Prófessor Manohar Bance segir, að þessar fyrstu niðurstöður aðgerðarinnar séu „betri en ég átti von á“:
„Við höfum niðurstöður frá Opal sem eru stórkostlegar – svo nálægt eðlilegum heyrnarbata, svo við vonum virkilega, að þetta geti verið hugsanleg lækning. Það er búið að leggja svo mikla vinnu í þetta, áratuga vinnu.“
Annað heyrnarskert barn fór nýlega í svipaða aðgerð við Cambridge háskóla, sem einnig er sögð hafa skilað góðum árangri.
Um helmingur heyrnarleysis er af erfðafræðilegum ástæðum
Um helmingur heyrnarleysis er af erfðafræðilegum orsökum og eru bundnar vonir við, að genameðferð geti ráðið bót á því. Í dag fá flestir, eins og Nora, systir Opal, kuðungsígræðslu, sem er tæki sem þarf að skipta um nokkrum sinnum. Talið mikilvægt að framkvæma aðgerðina eins snemma og hægt er, fyrir þriggja ára aldur, því þá er heilinn aðlögunarhæfari.
Núna þegar stúlkan hefur fengið heyrnina, þá er eitt helsta áhugamál hennar að slá hnífapörum eins fast og hún getur í borðið til að skapa sem mestan hávaða. Það gera flest öll heilbrigð börn, þótt foreldrunum líki það kannski ekki alltaf.
Hér að neðan er útskýringarmynd sem BBC birti um genaaðgerðina: