Páll Vilhjálmsson skrifar:
Frosti Logason fjölmiðlamaður varð fyrir skipulögðum ofsóknum fjölmiðla. Hann var sakaður um ofbeldi í nánu sambandi. Tíu ára gamalt ástarsamband, sem lauk með hávaða og látum, eins og stundum gerist hjá fólki, var notað gegn Frosta.
Miðlæg í herferðinni gegn Frosta var fjölmiðlakonan Edda Falak. Hún vann með fyrrum kærustu Frosta að draga upp þá mynd að hann væri óalandi og óferjandi í siðuðu samfélagi.
Frosti, sem var flestum hnútum kunnugur í fjölmiðlum, kom að lokuðum dyrum þegar hann vildi segja sína hlið málsins. Stundin, nú Heimildin, beinlínis neitaði honum að taka til máls á þeim vettvangi þar sem æran var skipulega og miskunnarlaust tætt af fjölmiðlamanninum.
Núna, tveim árum eftir fárið, fær Frosti tækifæri að segja sína sögu. Í millitíðinni afhjúpaði hann Eddu Falak fyrir að vera eitthvað allt annað en fróman sannleiksleitanda í opinberri umræðu. Persónuleg reynsla Frosta er áhugaverð. Sýnu merkilegri er þó innsýn sem Frosti veitir í andrúmsloft fjölmiðlunar sem illu heilli hefur fengið að þrífast alltof lengi.