RÚV: Gísli Marteinn hampar Falak – þegir Maríu Sigrúnu

frettinFjölmiðlar, Innlent, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Fyrir ári var Edda Falak á Heimildinni afhjúpuð sem svikahrappur. Hún bæði laug um fortíð sína og viðfangsefni sin sem blaðamaður. Edda Falak er ofbeldisblaðamaður, skrifaði lögmaðurinn Eva Hauksdóttir í frægri grein í Vísi.

Gísli Marteinn á RÚV hélt nú ekki. Hann mærði Eddu Falak og Heimildina (áður Stundin og Kjarninn), trúr hollustu sinni við RSK-bandalagið. Í Twitter/X-færslu skrifaði Gísli Marteinn:

Edda Falak er undanfarin ár búin að vera hugrakkasti aktívistinn gegn kynbundnu ofbeldi og ein öflugasta rannsóknarblaðakona landsins. Hún og aðrar konur sem ógna feðraveldinu fá margfalt meira hatur en við karlarnir. Heimildin og Edda búin að svara árásum og áfram gakk.

Ekkert varð af áfram gakkinu. Þrátt fyrir stuðning óopinbers talsmanns RÚV gat Heimildin ekki annað en látið Falak sigla sinn sjó. Allt gerðist þetta fyrir einu ári. Ekki hefur Gísli Marteinn enn beðist afsökunar að hampa ofbeldisblaðamanni.

Gísli Marteinn er áhrifavaldur á samfélagsmiðlum í krafti RÚV. Ríkisfjölmiðillinn er vettvangurinn sem gefur sjónvarpsmanninum færi á tvöföldu vægi í umræðunni. RÚV sendir Gísla Martein inn á heimili landsmanna á föstudagskvöldum með nauðungaráskrift. Sjónvarpsmaðurinn nýtir sér ríkisstuðninginn til að gera sig gildandi á öðrum og óskyldum vettvangi, samfélagsmiðlum. En hann er valkvæður í stuðningi sínum við menn og málefni.

Í Twitter/X-færslu Gísla Marteins er honum sérstaklega umhugað um framgang rannsóknablaðakvenna. En ekki allar fréttakonur njóta stuðnings sjónvarpsmannsins. María Sigrún Hilmarsdóttir fréttamaður á RÚV hefur síðustu vikur strítt við karlaveldið á RÚV vegna fréttar, rannsóknablaðamennsku, um spilltan gjafagjörning Reykjavíkurborgar til olíufélaganna. María Sigrún fékk bágt fyrir, svo vægt sé til orða tekið.

Ekki hefur Gísli Marteinn enn stigið á stokk til að verja Maríu Sigrúnu árásum feðraveldis RÚV. Þögn Gísla Marteins rímar við þögn Heimildarinnar, en þar á bæ segjast menn sérfræðingar í spillingu. Ekki orð um lóðaspillinu Dags og vinstrimanna er að lesa í Heimildinni.

Tilfallandi fjallaði nýlega um Maríumál Sigrúnar og sagði um valdastöðu vinstrimanna í opinberri umræðu:

Tilraunir til að þagga niður í Maríu Sigrúnu sýna þéttriðið valdanet vinstrimanna í stjórnsýslu og fjölmiðlum. Valdanetið er virkjað til að kaffæra þá sem voga sér að fletta ofan af spillingu og misbeitingu fárra á kostnað almannahagsmuna.

Gísli Marteinn ver með kjafti og klóm ofbeldisblaðamann sem starfar í þágu vinstrimennsku, valdabandalagsins, en lætur sér í léttu rúmi liggja árásir á heiðarlegan blaðamann er flettir ofan af spillingu vinstrimeirihlutans í Reykjavík, sem Gísli Marteinn styður. Hann notar ríkisstuðninginn, sem hann fær frá RÚV, til að gera sig breiðan á samfélagsmiðlum, talar upp ofbeldisblaðamann en þegir um heiðarlega blaðamennsku. Gísli Marteinn er tákngervingur spilltrar umræðumenningar með RÚV sem bakhjarl.

Skildu eftir skilaboð