Jón Magnússon skrifar:
Í viðskiptablaði Mbl fyrir viku sagði að íslenska ríkið greiddi 350 milljónir kr. á dag í vexti af óreiðuskuldum sem hafa hlaðist upp í tíð þessarar ríkisstjórnar.
Ekki að undra miðað við það, að viðtakandi fjármálaráðherra við myndun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur orðaði það með þeim hætti, að skapa ætti góð lífskjör í landinu með hallarekstri ríkissjóðs.
Kóvíd ruglið tók stóran toll, sem aldrei þurfti að vera í þeim gríðarlega mæli sem var og merkilegt að helstu sporgöngumenn þeirrar vitleysu skuli telja sig hetjur í héraði og til þess bæra að leiðbeina öðrum um val á næsta forseta lýðveldisins.
Við borgum 350 milljónir á dag í vexti vegna vondrar fjármálastjórnar undanfarinna ára og enn er hlaðið í þar sem ríkissjóður er rekinn með miklum halla og stjórnvöld ætla að gera það áfram. Vaxtagreiðslur á dag munu því líklega nema 750 milljónum á dag eftir þrjú ár. Þeir peningar verða ekki notaðir í annað.
Því miður eru allir flokkar sem eiga fulltrúa á Alþingi sammála um að reka ríkissjóð með halla. Jafnvel efnahagssérfræðingurinn í formannssæti Samfylkingarinnar neitar að horfast í augu við og móta stefnu síns flokks miðað við raunveruleikann en telur rétt að halda áfram að fljóta sofandi að feigðarósi.
Það er til skammar fyrir nú kynslóðina í valdastólum á Íslandi að eyða og eyða eins og engin væri morgundagurinn og ætla börnum sínum og barnabörnum að hreinsa óhroðan og ábyrgðarleysið eftir sig. Aðhaldsleysið og ábyrgðarleysið er algjört og það virðist vera það eina sem ríkisstjórnarflokkarnir eru sammála um.
Hér má skoða nýlega skýrslu Viðskiptaráðs.