Dagur keypti velvild gjaldþrota RÚV

frettinFjölmiðlar, Innlent, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Skýringin á vanþóknun Dags Eggertssonar borgarstjóra, nú formanns borgarráðs, á frétt Maríu Sigrúnar um gjafagjörning borgarinnar til olíufélaganna liggur í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Á fyrstu árum sínum í embætti borgarstjóra bjargaði Dagur RÚV frá gjaldþroti - með lóðabraski. Dagur fórnaði hagsmunum borgarbúa til að kaupa velvild RÚV.

RÚV er ohf, þ.e. opinbert hlutafélag, og þarf sem slíkt að eiga fyrir skuldum. Annars fer félagið í gjaldþrot. Um miðjan síðasta áratug átt RÚV ekki fyrir skuldum, var ógjaldfært eins og það heitir á bókhaldsmáli.

Dagur varð borgarstjóri 2014. Undir hans forystu var fjárhag RÚV bjargað. RÚV fékk frá borginni um 2,5 milljarða króna (núvirt).

Um það leyti sem gjafagjörningur Dags til olíufélaganna var á dagskrá, árið 2019, var Stefán Eiríksson núverandi útvarpsstjóri hægri hönd Dags og staðgengill. Ári síðar var Stefán orðinn útvarpsstjóri - með blessun Dags. Stefán hóf störf hjá borginni sama ár og Dagur varð borgarstjóri. Tveim árum síðar fékk Stefán stöðuhækkun, varð borgarritari.

Sama ár og gjafagjörningur Dags og Stefáns til olíufélaganna var á dagskrá birti Ríkisendurskoðun skýrslu um RÚV. Þar er fjallað um gjafagjörning Dags til RÚV árin 2015-2016.

Dagur gerði samning við RÚV um að taka hluta af lóð útvarpshússins á Efstaleiti undir íbúðabyggð. Lóðabraskið færði RÚV um 2,5 milljarða króna í hreinar tekjur, framreiknað. Ríkisendurskoðun segir á bls. 34: ,,vekur athygli hversu lítill hluti afraksturs þessa samnings kom í hlut borgarinnar."

RÚV var á þessum tíma í verulegum fjárhagskröggum. RÚV var ,,bjargað frá greiðslu- og gjaldþroti árin 2009 og 2014," segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar lýsir furðu yfir gjafmildi borgarinnar gagnvart ríkisfjölmiðlinum. Á bls. 33 segir:

Ennfremur er ekki sýnilegt að Reykjavíkurborg meti það hjá sér til útgjalda að framselja til Ríkisútvarpsins ohf. þau verðmæti sem felast í sölu á byggingarétti á lóð sem borgin hefði getað gengið eftir að yrði skilað.

Árið 2015 gaf Dagur borgarstjóri RÚV um 2,5 milljarða króna í lóðaverðmætum og lék sama leikinn fjórum árum síðar gagnvart olíufélögunum. Með orðum Ríkisendurskoðunar þá framseldi borgin ,,umtalsverð verðmæti til ógjaldfærs opinbers hlutafélags til að hægt yrði að lækka skuldir þess."

Dagur bjargaði RÚV frá gjaldþroti 2015 og taldi sig búinn að kaupa sig frá gagnrýnni umfjöllun Maríu Sigrúnar um gjafagjörninginn gagnvart olíufélögunum.

Svona virkar spilling vinstrimanna, hún fer í gegnum stjórnsýsluna og ríkisfjölmiðilinn. Formúlan er eftirfarandi: ef engar fréttir eru af spillingu þá er engin spilling.

María Sigrún fréttamaður braut mafíusamkomulag RÚV og ráðhússins, sagði fréttina af gjafagjörningi Dags til olíufélaganna. Þá reiddust vinstrigoðin í ráðhúsinu og á Efstaleiti og vönduðu fréttamanninum ekki kveðjurnar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarráðherra sagði á alþingi í fyrradag að hún, sem yfirmaður RÚV, skipti sér ekki af ,,ritstjórn RÚV." En ætlar hún að láta órannsakaða spillinguna?

Skildu eftir skilaboð