Páll Vilhjálmsson skrifar:
Ritstjóri Heimildar, áður Kjarnans, er Þórður Snær Júlíusson. Hann álítur sjálfan sig sérfræðing í spillingu. Spillingarauga Þórðar Snæs er þó valkvætt. Hann sér ekki vanþrifin i eigin ranni og samherja en þess betur rykkornin í stofum annarra.
Sigurður Már Jónsson blaðamaður hlustaði á Þórð Snæ er hann var til útvarps á RÚV daginn eftir að María Sigrún fréttamaður afhjúpaði spillinguna í ráðhúsi Reykjavíkur, gjafagjörning Dags borgarstjóra til olíufélaganna. Sigurður skrifar:
Það vakti athygli pistlaskrifara að í vikulegu spjalli Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra, Heimildarinnar, á Rás eitt í morgun var ekki vikið orði að þessu máli og það þótt öll umræðan væri helguð fjármálum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Nei, Þórði Snæ þykir ekki spillingarfnykur af gjöfum Dags til olíufélaganna. Almannafé má fara til spillis er pólitískir vinir ritstjórans eiga í hlut.
Það vill svo til að Þórður Snær hefur útskýrt spillinguna sem hann á aðild að. Hann gerði það í samtali við alræmdan danskan blaðamann, Lasse Skytt, í viðtali þar sem ritstjórinn reyndi að bera af sér sakir í byrlunar- og símastuldsmálinu, en þar er hann sakborningur ásamt fjórum öðrum blaðamönnum. Gefum Þórði Snæ orðið:
Á Íslandi hafa margir nokkuð óþroskaðar hugmyndir um hlutverk fjölmiðla sem eins af burðarstólpum lýðræðisins. Þeir álíta blaðamenn ekki skipta máli. Þess í stað er samfélagið okkar gegnsýrt af spillingarmentalíteti, þar sem reglan um „greiða gegn greiða“ gildir. Aðgangur að tækifærum, upplýsingum og peningum annarra byggist á því að þú standir inni í tjaldinu og pissir út, frekar en að standa utan við það og pissa inn.
Þórður Snær stendur inn í tjaldinu. Hann er ritstjóri vinstriútgáfu sem haldið er uppi af nafnlausum auðmönnum. Þá er hann á launum hjá RÚV, mætir vikulega í settið að ræða viðskipti og efnahagsmál. En þótt spillingin sé rekin í trýnið á Dodda sér hann ekki vanþrifnaðinn er pólitískir félagar eiga í hlut.
Tilvitnuð orð ritstjóra Heimildarinnar útskýra einnig háttsemi Dags borgarstjóra og Stefáns útvarpsstjóra og fyrrum staðgengil Dags. Þar gildir ,,greiði gegn greiða". Dagur bjargaði RÚV frá gjaldþroti, eins og rakið var í bloggi gærdagsins. RÚV er rakki Dags - með Stefán sem hlýðniþjálfara.