Hallur Hallsson blaðamaður var aftur í viðtali við Fréttina vegna fósturvísamálsins. Gústaf Skúlason hafði samband við Hall eftir yfirheyrslu lögreglunnar sem ferðaðist til Akureyrar frá Reykjavík 16. maí til að yfirheyra Hall Hallsson vegna skrifa hans um fósturvísamálið en greinar Halls hafa vakið töluverða athygli að undanförnu.
Komu með þá frétt að sunnan að Hallur hefði brotið lög sem sett voru til að aðstoða konur í sambúð við ofbeldisfulla sambýlismenn!
Í viðtalinu kom fram að Hallur Hallsson fékk engin gögn, engan pappír með formlegri ákæru eða hvaða sakir væru á hann bornar. Hins vegar færði lögreglan að sunnan honum þá munnlegu frétt, að hann væri ásakaður um brot á lögum númer 19/1940, með vísun í viðbótargrein 232.gr. a. sem bætt var við ár 2021, sem er svohljóðandi:
„Hver sem endurtekið hótar, eltir, fylgist með, setur sig í samband við eða með öðrum sambærilegum hætti situr um annan mann og háttsemin er til þess fallin að valda hræðslu eða kvíða skal sæta sektum eða fangelsi allt að 4 árum.“
Hallur benti á, að lögin tengdust fullgildingu Íslands á Istanbúl-samningnum, samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Hallur spyr:
„Hvernig á ég að geta verið með umsátur og einelti við fólk í Reykjavík? Ég bý á Akureyri.“
Kurteisir lögreglumenn
Hallur tók það sérstaklega fram að lögreglumennirnir, karl og kona, hefðu verið afskaplega kurteis og viðmótsþýð og ekkert væri við þau að sakast. Með Halli var lögmaður hans einnig viðstaddur yfirheyrslurnar. Hallur upplýsti lögreglumennina að hann væri blaðamaður og sýndi þeim blaðamannaskírteini sitt því til staðfestingar. Í starfi blaðamanna felst að fylgjast með og upplýsa mál sem eru mikilvæg og því fjallvegur að tengja störf blaðamanns við ofbeldi gegn konum á heimilum.
Þar sem engin skrifleg ákæra var lögð fram, heldur einungis munnlegar tilvísanir, þá spurði Gústaf Skúlason hvort hægt væri að taka mark á þessu:
„Í mínum bókum kallast það orðrómur ef aðili kemur og vitnar í það sem þriðji maður hefur sagt, ef þriðji maðurinn er ekki sjálfur viðstaddur til að segja hlutinn sjálfur.“
Hver var tilgangurinn með „yfirheyrslunni“ á Halli Hallssyni blaðamanni?
Hallur lýsti því, að sú krafa hefði verið borin fram, að hann hætti að skrifa um málið. Engin skýr útskýring var gefin önnur en „umsátur og einelti.“ Hallur sagði:
„Sú krafa er sett fram, að ég fjalli ekki um þetta mál og rödd mín sé þögguð og hvaða úrræðum í framhaldi verði beitt….Ég lít á þetta og held að allir líti á þetta…ég veit að lögmenn í Reykjavík eru algjörlega þrumu lostnir yfir því, að þessum lögum skulu vera beitt með þessum hætti…“
Gróf aðför að málfrelsi, frelsi og lýðræði
Hallur hélt áfram:
Þetta er svo mikil atlaga að mínu mannorði, mínum starfsheiðri. Allir blaðamenn á Íslandi eiga í þessu framhaldi á hættu að verða teknir svona úr sambandi. Þetta hefur náttúrulega aldrei átt sér stað hér á landinu bláa áður. Þetta er í fyrsta sinn sem þessum lögum er beitt og lögreglan gerir þetta. Þetta er svo gróf aðför að málfrelsi í þessu landi og frelsi og lýðræði, að við lifum í öðru landi á eftir.“
Hlusta má á viðtalsþáttinn hér að neðan: